Innlent

Flokksmenn beðnir að benda á hugsanlega frambjóðendur

Guðjón Arnar Kristjánsson
Guðjón Arnar Kristjánsson

Flokksmönnum í Frjálslynda flokknum hefur borist bréf frá forystu flokksins þar sem þeir eru beðnir að láta vita hvort þeir hafi áhuga á að taka sæti á framboðslistum fyrir þingkosningarnar í vor eða viti af einhverjum sem hugsanlega hefðu áhuga á framboði.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir þetta í fyrsta sinn sem flokkurinn fari þessa leið í leit að frambjóðendum en fyrir síðustu kosningar hafi verið auglýst í blöðum eftir áhugasömu fólki til að taka sæti á lista.

Sjálfur reiknar Guðjón Arnar með að bjóða sig fram í sínu „gamla kjördæmi,“ eins og hann orðar það, en hann er af Vestfjörðum, sem tilheyra Norðvesturkjördæmi. Spurður um áform annarra þingmanna flokksins, þeirra Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Sigurjóns Þórðarsonar, segir Guðjón þá örugglega fara fram þó ekki sé ákveðið í hvaða kjördæmum það verði. Sigurjón var í öðru sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi en Magnús í fyrsta sæti í Suðurkjördæmi. „Það liggur ekkert á að ákveða þetta og það verður örugglega ekki fyrr en í febrúar eða mars sem framboðslistar verða tilbúnir hjá okkur. Við höldum ró okkar og förum ekki á taugum yfir einu né neinu,“ sagði Guðjón Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×