Innlent

Pólitísk samstaða ríkir um málið

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir Mynd/Heiða

Tillögu Samfylkingarinnar, um að gengið verði til viðræðna við byggingarfélög námsmanna um uppbyggingu allt að átta hundruð stúdentaíbúða á næstu árum, var einróma vísað til meðferðar í skipulagsráði á fundi borgarráðs í gær.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, kveðst ánægður með samstöðu borgarstjórnar um málið. "Ég tel að þarna hafi verið tekið af skarið með að haldið verði áfram með þessi verkefni sem eru brýn því þörfin er gríðarleg." Dagur segir áherslu lagða á að íbúðir séu gjarnan í miðborginni innan um verslun og þjónustu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir viðræður við námsmannahreyfingarnar um húsnæðismál hafa staðið yfir undanfarið og að ekkert nýtt komi fram í tillögunni. "Það er hægt að segja að samstaða ríki í borgarstjórn um að tryggja námsmönnum íbúðir í borginni en við hefðum viljað sjá fyrrverandi meirihluta hefja áætlun um uppbyggingu fyrr."

Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, vonast til að lausn sé í sjónmáli á miklum húsnæðisvanda námsmanna. "Á undanförnum árum hefur húsnæðisverð hækkað gríðarlega og ungt fólk verður í meiri mæli að leita út á leigumarkaðinn. Þar bætir ekki úr skák að húsaleigubætur hafa ekki hækkað frá árinu 2000, en á sama tíma hefur leiguverð hækkað um 55 prósent."

Svæðin sem eru í deiglunni eru á svokölluðum Barónsreit við Hlemm þar sem um 100 íbúðir geta risið, við Einholt-Þverholt, þar sem fyrirhugað er að byggja upp allt að 400 herbergi og íbúðir. Einnig eru byggingarreitir í Vatnsmýrinni sem gætu opnað fjölmarga möguleika fyrir stúdentagarða með nýju skipulagi á svæðum HÍ og HR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×