Innlent

Erfitt verkefni framundan

Ólafur Þ. Harðarson
Ólafur Þ. Harðarson

„Það vekur at­hygli að Framsóknarflokkurinn er enn með svipað fylgi, svo flokksþing þeirra hefur ekkert híft flokkinn upp. Framsókn á erfiðan vetur fyrir höndum ef þeir eiga að ná kosningafylginu,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, um skoðanakönnun Fréttablaðsins.

Hann segir niðurstöðu könnunarinnar ekki vera góða fyrir Sjálfstæðisflokkinn og segir teikn á lofti um að stjórnin haldi ekki velli í næstu alþingiskosninum. „Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfirleitt fengið hærra í könnunum en í kosningum. Fylgi stjórnar og stjórnarandstöðu er nánast jafnt, eins og það hefur verið allt kjörtímabilið. Það gæti bent til þess að stjórnin haldi ekki velli í næstu kosningum,“ segir Ólafur. „Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa nær alltaf haft tvo þriðju atkvæða. Það sem við sjáum núna er að þeir eru einungis með um helming atkvæða og gætu misst meirihluta eftir kosningar. Það var óhugsandi lengst af síðustu öld,“ bætir hann við.

Ólafur segir útkomuna góða fyrir Vinstri græn en bendir á að þau fái oft meira fylgi í könnunum en kemur upp úr kjörkössum. Annað eigi við um Frjálslynda flokkinn sem mælist oft lægri í könnunum en í kosningum. Útkoma könnunarinnar er ekki góð fyrir Samfylkinguna að mati Ólafs. „Samfylkingin er talsvert undir kosningafylginu, sem er ekki gott fyrir stjórnarandstöðuflokk,“ segir Ólafur. Hann bendir þó á að langt sé í kosningar og forspárgildi könnunar núna hafi lítið gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×