Innlent

Fann þetta á mér

„Ég grátbað hann að fara ekki því að ég fann á mér að eitthvað myndi gerast,“ sagði faðir Hlyns Sigurðarsonar þegar Fréttablaðið náði af honum tali. „Mig grunar að hann hafi gert þetta af fjárþörf.“

„Ég er illa á mig kominn eftir þetta allt saman og við fjölskyldan öll,“ sagði faðir Hlyns. „Það er augljóst mál að maður hefur stanslausar áhyggjur af líðan hans þarna úti og aðstæðum, enda elska ég son minn mjög mikið.“

Hann segir suma fjölskyldumeðlimi reyna að loka augunum fyrir ástandinu til að halda sönsum en það hafi hann ekki getað gert. „Það þýðir ekkert að gera það, þannig leysist málið ekki. Hann þarf á stuðningi að halda og þarf að skynja að hann sé að finna hér,“ segir faðir hans.

Fjölskylda Hlyns og vinir hafa staðið straum af kostnaðinum sem fylgt hefur málinu. Bæði hafa Hlyni verið sendir peningar sem hann hefur notað til að múta með og auk þess hefur faðir hans greitt allan lögfræðikostnað hingað til, samanlagt hleypur upphæðin á hundruðum þúsunda. „Hann kemst ekki af þarna nema bera fé á fólk og við vitum það. Við verðum að reyna að hjálpa eins og við getum,“ sagði faðir hans.

Hann segir fjölskylduna halda í vonina að Hlynur verði framseldur heim eftir að dómur hefur verið upp kveðinn. „Ég vil að hann afpláni sína refsingu, annað kemur ekki til greina hjá okkur, en við viljum fá hann heim úr þessu helvíti á jörðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×