Innlent

Búast við auknu samráði

Stjórn Barnavistunar, félags dagforeldra, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem stofnun nýs leikskólaráðs hjá Reykjavíkurborg er fagnað.

Núna eigum við von á að fá að vera meira með í ráðum eins og var í leikskólaráði fyrir nokkrum árum, segir Helga Kristín Sigurðardóttir sem situr í stjórn Barnavistunar.

Áður fengum við að sitja samráðsfundi en eftir að leikskólaráðið var lagt af höfum við þurft að berjast fyrir öllu sem við höfum viljað koma á framfæri.

Helga Kristín segir að þegar leikskólaráð var fellt inn í menntaráð á sínum tíma hafi dagforeldrar gleymst. Hún segir að lítið hafi verið hlustað á dagforeldra eftir sameininguna og erfitt hafi reynst að fá skýr svör frá stjórnendum. Enginn gat lofað neinu og okkur var sagt að málið yrði skoðað, svo heyrðist ekkert frekar frá viðkomandi. Það var erfitt að ná eyrum stjórnenda því við vorum svo fá, segir Helga Kristín.

Dagforeldrar eru vongóðir um að meira tillit verði tekið til kjara þeirra með endurvakningu leikskólaráðs, þegar gjaldskrá leikskólanna er til umræðu og niðurgreiðsla til foreldra hækki sem nemur lækkun leikskólagjalda.

Við höfum barist fyrir því að foreldrar hafi val. Að þeir geti ákveðið að senda barnið sitt til dagforeldra án þess að það kosti meira en að hafa það í leikskóla, segir Helga Kristín. Sumum börnum hæfir betur að vera vistuð hjá dagforeldrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×