Innlent

Nýja stúkan verður vígð á morgun

Sætin fest Með nýju stúkunni fjölgar sætum á vellinum í tíu þúsund. Búist er við að stúkan verði endanlega tilbúin í byrjun september.
Sætin fest Með nýju stúkunni fjölgar sætum á vellinum í tíu þúsund. Búist er við að stúkan verði endanlega tilbúin í byrjun september. MYND/Hörður

Ný stúka á Laugardalsvelli verður vígð á morgun á leik karlalandsliða Íslendinga og Spánverja í knattspyrnu.

Framkvæmdir hafa staðið yfir við völlinn þorra ársins en á morgun verður setið í nýrri stúku í fyrsta sinn. Eggert Magnússon, formaður KSÍ, segir unnið að því hörðum höndum að gera sætin tilbúin fyrir leikinn á morgun. „Við vissum alltaf að framkvæmdin myndi ekki klárast fyrr en í lok þessa árs. Það sem við stefndum að var að hafa sætin tilbúin fyrir þennan Spánarleik og það er verið að berjast í því núna að klára það.“ Eggert segir að líklega verði lokið við að gera sætin tilbúin í kvöld.

Framkvæmdin felur í sér að gamla stúkan hefur verið stækkuð til norðurs og suðurs og sætum á vellinum þannig fjölgað í tíu þúsund, auk þess sem verið er að reisa fræðslumiðstöð vestan gömlu stúkunnar. „Við vonumst til að stúkan verði alveg tilbúin fyrir leik við Danmörku í Evrópukeppninni 6. september, sem er fyrsti leikur í alvöru keppni með þessari nýju stúku,“ segir Eggert. Miðasala á leikinn gegn Spánverjum gengur vel og í gær voru minna en þúsund miðar óseldir í sæti, af um tíu þúsundum, auk þess sem boðið er upp á miða í stæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×