Innlent

Seinustu F-15 þoturnar farnar

þyrla varnarliðsins Þyrlurnar fara væntanlega í september.
þyrla varnarliðsins Þyrlurnar fara væntanlega í september. Mynd/Baldur Sveinsson

Síðustu þrjár F-15 þotur varnarliðsins í Keflavík fóru af landi brott í gærmorgun.

Tvær björgunarþyrlur eru einu flugvélar varnarliðsins sem á eftir að flytja burt og verður það líklegast gert einhvern tímann í september að sögn Friðþórs Eydals, upplýsingafulltrúa varnarliðsins.

F-15 þoturnar hafa verið nokkurs konar tákngervingar varna Bandaríkjanna á Íslandi í umræðunni um varnarmálin og hefur mikil áhersla verið lögð á veru þeirra hér sem sýnilegar varnir á Íslandi.

Í maí árið 2003 tilkynnti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi íslenskum stjórnvöldum að kalla ætti þoturnar burt en þau fyrirmæli voru dregin til baka nokkrum dögum síðar. Svo var það í mars á þessu ári sem bandarísk stjórnvöld tilkynntu að þoturnar yrðu kallaðar heim.

Flutningar á bílum og öðrum tækjum sem geta nýst annars staðar standa einnig yfir jöfnum höndum að sögn Friðþórs og er öllu öðru komið í lóg hér.

Rétt tæplega sex hundruð manns af starfsfólki varnarliðsins eru enn eftir á Íslandi og er gert ráð fyrir að allir verði farnir í lok september að sögn Friðþórs. "Fólkið er að fara burt smátt og smátt. Hraði brottflutninganna fer eftir því sem fólkið er tilbúið til ferðar og störf eru til reiðu handa því," segir Friðþór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×