Innlent

Ber við vanþekkingu á reglum

háfurinn mundaður Samkvæmt lögum eiga allir sem stunda lundaveiðar að vera með veiðikort. Brot á þessum lögum varða fjársektum eða fangelsi.
háfurinn mundaður Samkvæmt lögum eiga allir sem stunda lundaveiðar að vera með veiðikort. Brot á þessum lögum varða fjársektum eða fangelsi.

„Ástæðan fyrir því að ég var þarna á veiðum án veiðikorts var að ég gerði mér ekki grein fyrir að til þessara veiða þyrfti ég veiðikort,“ segir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra um lundaveiðar hans í Grímsey í Steingrímsfirði á dögunum.

Í Fréttablaðinu á þriðjudag birtist grein um lundaveiðar Einars og bárust í kjölfarið ábendingar um að hann væri ekki með veiðikort. Við nánari athugun reyndist það rétt. Samkvæmt Sigurði Erni Guðleifssyni, lögfræðingi Umhverfisstofnunar, eru hvorki ráðherra né aðstoðarmaður hans með veiðikort. Samúel Örn Erlingsson, sem einnig var að veiðum á sama tíma, er líka veiðikortslaus.

Í annarri grein reglugerðar um veiðikort og hæfnispróf veiðimanna segir: „Allir sem stunda veiðar á villtum dýrum, öðrum en rottum og músum, sbr. lög nr. 64/1994, skulu afla sér veiðikorts.“ Í elleftu grein sömu reglugerðar segir að brot gegn reglunum varði sektum, varðhaldi eða fangelsi og sviptingu veiðileyfis.

Sigurður segir grein Fréttablaðsins gefa tilefni til að rannsaka málið betur en fullyrðir ekkert um til hvaða aðgerða Umhverfisstofnun grípi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×