Innlent

Ættum að standa okkur betur

Foldaskóli Bæta þarf grunnskólann að mati OECD, sem telur námsárangur barna hér óviðunandi.
Foldaskóli Bæta þarf grunnskólann að mati OECD, sem telur námsárangur barna hér óviðunandi. MYND/GVA

 „Frekar á að leggja áherslu á gæði kennslu en magn hennar,“ segir Val Koromzay, sérfræðingur OECD sem í gær kynnti nýja skýrslu stofnunarinnar. Í henni er fjallað um efnahagsmál auk menntamála. Þar telja skýrsluhöfundar úrbóta þörf.

Auka þarf hlutfall menntaðra kennara á landsbyggðinni, en við kynningu skýrslunnar var sérstaklega bent á þá staðreynd að börn af landsbyggðinni næðu síður góðum árangri í svonefndum PISA-könnunum. Koromzay sagði ekki viðunandi miðað við tilkostnað við menntakerfið hér að kunnátta barna væri bara í meðallagi í OECD-ríkjunum.

Þá segir í skýrslunni að brottfall úr námi eftir grunnskóla sé of mikið. Mælt er með styttingu framhaldsskólans, að því tilskyldu að það komi ekki niður á námsgæðum og árangri. Að auki er hvatt til alvarlegrar umræðu um hvort áhersla eigi að vera á háskólanám heima fyrir eða hvort ýta eigi undir nám í útlöndum.

„Það er gott að OECD sé að einblína á menntamálin í sinni umfjöllun. Það koma fram margar athyglisverðar tillögur sem við þurfum að huga að, en ánægjulegt er að það er bent á margt sem vel er gert. Stjórnarandstaðan mætti benda á það oftar,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra um nýútkomna skýrslu OECD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×