Innlent

Nýtti þrjá til að búa til einn

Nissan patrol Maðurinn stal tveimur Patrol-jeppum og notaði númer af þeim þriðja til að geta verið á einum.
Nissan patrol Maðurinn stal tveimur Patrol-jeppum og notaði númer af þeim þriðja til að geta verið á einum.

Valur Sigurðsson, 25 ára, var í Héraðsdómi Suðurlands í gær dæmdur í tólf mánaða fangelsi, þar af níu skilorðsbundið, fyrir stuld á þremur bifreiðum.

Hinn 3. nóvember árið 2005 stal maðurinn Nissan Patrol jeppabifreið í Reykjanesbæ. Maðurinn fjarlægði af henni skráningar- og verksmiðjunúmer og setti í staðinn númer af Nissan Patrol bifreið sömu árgerðar, sem hann hafði til afnota. Stolnu bifreiðina nýtti hann svo til einkanota og lét meðal annars skoða hana hjá bifreiðaskoðun sem jeppann sem hann hafði haft til umráða. Maðurinn lét síðan breyta stolnu bifreiðinni á ýmsa vegu svo hún líktist sem mest Nissan-jeppanum sem hann átti.

Mánuði seinna stal maðurinn svo annarri Nissan Patrol bifreið í Reykjavík. Bifreiðinni ók maðurinn að Rauðavatni út í stórgrýti með þeim afleiðingum að hún skemmdist. Þar reif hann innan úr henni öll sæti og hurðarspjöld ásamt sérsmíðuðum framstuðara og álkassa aftan á bifreiðinni. Hugðist hinn dæmdi nýta sér hlutina til að gera hina stolnu bifreiðina enn líkari jeppanum sem hann hafði átt.

Maðurinn var einnig dæmdur fyrir stuld á Hyundai-fólksbifreið við Reykjavíkurflugvöll í byrjun nóvember árið 2005, sem hann nýtti sér til einkanota fram til 6. janúar árið 2006.

Í ofanálag var maðurinn dæmdur fyrir að nota litaða vélaolíu á stolna jeppann sem hann breytti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×