Innlent

Fór ránsferð um búðir á Laugavegi

laugavegur í reykjavík
Lögregla hafði afskipti af ölvaðri konu sem stal úr búðum við Laugaveginn.
laugavegur í reykjavík Lögregla hafði afskipti af ölvaðri konu sem stal úr búðum við Laugaveginn. MYND/GVA

Tilkynning barst til lögreglu um ölvaða konu sem var til vandræða á Laugaveginum um fjögurleytið í fyrradag.

Lögregla fann konuna, sem er um fertugt, töluvert ölvaða á bekk fyrir utan Laugaveg 9 með umtalsvert þýfi á sér sem hún virðist hafa stolið úr hinum ýmsu búðum við Laugaveginn. Eftir að hafa fengið leyfi til að skoða í tösku konunnar fann lögregla þar belti og sylgjur, bók, lítið útvarp og tvær hljómplötur. Á gangstéttinni fyrir framan konuna þar sem hún sat lá pils, bolur og buxur. Ekki gat konan gefið skýringu á hvernig neitt af ofantöldu komst í hennar eigu.

Konan var handtekin og færð í fangageymslur, þar sem hún var látin sofa úr sér. Hún var yfirheyrð í gærmorgun. Hún hefur talsvert komið við sögu hjá lögreglu vegna ölvunar og búðahnupls.

Verkfærum var stolið úr vinnuskúr við Grand Hótel í Sigtúni í fyrrakvöld. Andvirði þýfisins er um sjö hundruð þúsund krónur. Lögregla segir þjófnað á verkfærum algengan um þessar mundir.

Þá var veski konu stolið í Vídeó­höllinni í Lágmúla í fyrrakvöld þegar hún lagði það frá sér. Í því voru fjörutíu þúsund krónur í peningum ásamt greiðslukortum. Þjófurinn er enn ófundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×