Innlent

Ísland geri tvíhliða samninga

Pascal Lamy Framkvæmdastjóri WTO neyddist til að slíta fundarlotunni í Genf í fyrradag og fresta viðræðum um óákveðinn tíma.
Pascal Lamy Framkvæmdastjóri WTO neyddist til að slíta fundarlotunni í Genf í fyrradag og fresta viðræðum um óákveðinn tíma. MYND/AFP

Guðmundur Helgason, ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, segir líklegt að í framtíðinni muni Ísland einblína á tvíhliða viðræður um fríverslunarsamninga, þar sem Doha-viðræðum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) hafi verið frestað um ótiltekinn tíma. Hann telur ólíklegt að landbúnaðartollar á Íslandi verði lækkaðir einhliða, heldur verði það gert sem áður í fríverslunarsamningum við önnur ríki.

„Það er afar sjaldgæft að ríki breyti tollum einhliða,“ segir Guðmundur. „Við reynum að semja um markaðsaðgang á milli ríkja.“

Doha-viðræðurnar eru alþjóðlegar samningaviðræður um lækkun tolla, sem hófust í Doha í Katar árið 2001. Síðan þá hafa verið haldnar framhaldsviðræður víðs vegar um heim, en nú, tæpum fimm árum síðar, lítur út fyrir að viðræðurnar hafi siglt í strand.

„Bandaríkjamenn þurfa að taka á sig meiri niðurskurð í innanlandsstuðningi við landbúnað en þeir hafa lýst sig reiðubúna að gera. Evrópusambandið hefur ekki viljað opnað markaði sína enn frekar fyrir landbúnaðarvörum og hvorki Indland né Brasilía hafa verið tilbúin að opna sín hagkerfi fyrir iðnaðarvörum. Innan þessara átakalína situr málið fast,“ segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×