Innlent

Ein milljón fer í útflutning

Mjólkursamsalan Forstjóri MS vill auka framleiðsluna.
Mjólkursamsalan Forstjóri MS vill auka framleiðsluna. MYND/Ingó

Innan við eitt prósent af heildarframleiðslu á mjólk hérlendis fer í útflutning.

Á yfirstandandi framleiðsluári, sem stendur frá 1. september til 31. ágúst, er greiðslumark mjólkur um 111 milljónir lítra. Þessi tala er það magn sem talið er að fari á innlendan markað.

Búist er við að greiðslumarkið fyrir mjólk fari í 116 milljónir lítra á næsta ári, en það var 106 milljónir lítra fyrir tveimur árum.

Viðbúið er að heildarmagnið fari milljón fram yfir í ár og það verði notað í vörur til útflutnings.

„Við höfum sáralítið afgangs til útflutnings því við höfum þurft að nota alla mjólkina á innanlandsmarkaðinn,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar. „Við vonumst til þess að geta notað um eina milljón lítra á næstunni til útflutnings.“ Söluverðmæti mjólkurafurðanna sem fara vestur um haf í ár er um sjötíu til áttatíu milljónir króna.

Guðbrandur telur að ef rétt sé að málum staðið geti mjólkurbændur aukið mjólkurframleiðslu um tugi milljóna lítra með litlum tilkostnaði og útflutningsverðmæti mjólkurafurðanna muni standa fyllilega undir kostnaðinum við að auka framleiðsluna. „Þetta útflutningsverkefni er leið til að styrkja við framleiðsluna hjá íslenskum mjólkurbændum og gefa þeim tækifæri til að auka sína framleiðslu ef nokkur kostur er,“ segir Guðbrandur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×