Innlent

Mikill hafís við strendur landsins

hafís Hér má sjá varðskipið Ægi innan um hafísinn norðaustur af landinu. Mun meira er nú af hafís hér við land en undanfarin ár.
hafís Hér má sjá varðskipið Ægi innan um hafísinn norðaustur af landinu. Mun meira er nú af hafís hér við land en undanfarin ár. mynd/jón páll ásgeirsson

Að sögn Þórs Jakobssonar hjá Veðurstofu Íslands er mun meiri hafís við Íslandsstrendur um þessar mundir en mörg undanfarin ár.

„Þetta er mjög óvenjulegt, því miðað við árstíma er ísinn miklu nær en venja er,“ segir Þór. „Þetta er sennilega því um að kenna að undanfarið hefur verið mikið um stillur og þá hefur ísinn náð að breiðast meira út til austurs, því venjulega er hann mun vestar nær Grænlandi.“ Þar að auki er ísinn að sögn Þórs mun víðfeðmari við landið en undanfarin ár.

Flogið var hafískönnunarflug á flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, í fyrradag og samkvæmt skýrslu sem unnin var eftir ferðina er ísröndin um 37 kílómetrar á lengd. Hún var næst landi um 57 kílómetra norðvestur af Straumsnesi.

Austan við ísröndina var stór ísfláki sem lá næst landi um 31 kílómetra norður af Kögri á Vestfjörðum.

Að sögn Þórs getur hafísinn flækst fyrir skemmtiferða­skipum og fiskiskipum og því vill hann brýna fyrir skipstjórnarmönnum að fara varlega, en hann efast um að hættuástand skapist.

Hann telur að hafísinn muni ekki loka siglingarleiðinni austur fyrir Ísland. „Það er von á austlægri átt sem hrekur ísinn í vestur frá landi,“ segir Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×