Innlent

Heimahjúkrun verði meiri

Meirihluti Á-lista í bæjarráði Álftaness samþykkti á bæjarráðsfundi síðastliðinn fimmtudag að fela Sigurði Magnússyni bæjarstjóra að ganga frá samningsslitum við Hjúkrunar­heimilið Eir um uppbyggingu þjónustuíbúða og annarrar þjónustu í miðbæ sveitarfélagsins.

Sigurður Magnússon bæjarstjóri segir það rangt sem komið hafi fram í fjölmiðlum að ákvörðunin hafi verið einhliða frá bæjarráði. Nú muni bæjarráð standa fyrir arkitektasamningi með Arkitektafélagi Íslands um skipulag miðsvæðisins.

Þetta var eitt aðaldeilumálið í kosningunum í vor, það var óskað eftir því að svæðið yrði endurskipulagt. Uppbyggingu svæðisins verður frestað um ár, en hluti svæðisins verður notaður í uppbyggingu á þjónustuíbúðum fyrir aldraða og byggingu nýrrar stjórnsýslubyggingar sleppt. Við teljum þær 100 þjónustuíbúðir, sem átti að reisa, vera of mikið því við stefnum á aukna heimaþjónustu fyrir aldraða. Flestir vilja búa áfram heima, frekar en að flytja í þjónustuíbúðir, segir Sigurður.

Guðrún Jóhannsdóttir, formaður Félags eldri borgara á Álftanesi, segist vera orðin langþreytt á endalausum breytingum á skipulagi miðsvæðisins. Aldraðir hafi tekið þátt í undirbúningi fyrra skipulags og þeirra vinna sé nú til einskis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×