Barnabörn Dr. James Naismith, mannsins sem fann upp körfuknattleik árið 1891, hafa nú ákveðið að selja upprunalegu reglurnar sem afi þeirra skrifaði fyrir leikinn á sínum tíma. Þær fást svo sannarlega ekki gefins, því börnin fara fram á tíu milljónir dollara fyrir herlegheitin.
Naismith samdi reglurnar fyrir hinn nýja leik á sínum tíma að beiðni skólastjórans í skóla í Springfield í Bandaríkjunum sem hann kenndi leikfimi við, en skólastjórinn vildi búa til skemmtilegan leik fyrir börnin til að stunda innandyra. Meirihluti þeirra fjármuna sem koma til með að fást fyrir söluna á reglunum, mun renna í Naismith-sjóðinn, sem styrkir börn í landinu, en Naismith sjálfur var munaðarlaus frá 9 ára aldri.