Forráðamenn enska úrvalsdeildarliðsins Middlesbrough hafa neitað beiðni nígeríska knattspyrnusambandsins um að hleypa framherjanum sterka Yakubu í æfingabúðir mánuði fyrir Afríkukeppnina í knattspyrnu.
Ef áætlanir nígeríska landsliðsins hefðu náð fram að ganga, hefði Yakubu misst úr allt að 14 leiki með Boro, en það þykir forráðamönnum félagsins eðlilega allt of mikið. Líkur standa til að Yakubu muni þess í stað ekki halda til heimalandsins fyrr en þann 6. janúar og missi því ekki af nema á að giska sex leikjum í það heila.
Yakubu gekk í raðir Boro í sumar og hefur byrjað mjög vel með því að skora níu mörk fyrir félagið í vetur.