Gæsluvarðhald framlengt
Framlengt hefur verið til 25. nóvember gæsluvarðhald yfir pilti sem játað hefur að hafa stungið annan á menningarnótt í Reykjavík í ágúst. Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir málið standa þannig að pilturinn sé grunaður um að hafa stungið tvo um nóttina og að rannsókn haldi áfram. Í skjölum sem lögð voru fyrir Hæstarétt vegna fyrri gæsluvarðhaldsúrskurðar kemur fram að pilturinn vilji ekki kannast við að hafa stungið nema einn og neiti því að auki að hafa lagt til hans tvisvar. Þess í stað segir hann hnífinn hljóta að hafa skrikað til.