Sport

Meistararnir mætast í Keflavík

Góðgerðaleikir KKÍ fara fram á sunnudaginn en þar mætast Íslands- og bikarmeistarar karla og kvenna í Meistarakeppninni en sú venja hefur skapast að ágóði leikjanna rennur til góðgerðarmála. Að þessu sinni er það Foreldrafélag barna með axlarklemmu sem fær að njóta góðs af leikjunum. Sigrún Sigmarsdóttir, formaður foreldrafélagsins, segir peningana sem renna til félagsins koma sér sérstaklega vel. "Þetta skiptir okkur miklu máli því félagið hefur ekki verið sérstaklega sýnilegt til þessa, enda félagið fámennt og frekar lítið. En við ætlum að nota peningana til þess að setja upp aðgengilega heimasíðu þar sem foreldrar barna með axlarklemmu geta leitað sér upplýsinga." Sverrir Sverrisson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur og leikmaður karlaliðsins, á von á erfiðum leikjum. "Að mínu mati eru báðar þessar viðureignir mjög athyglisverðar því þarna mætast að mínu mati sterkustu lið landsins um þessar mundir. Stundum hafa orðið miklar breytingar á leikmannahópum liðanna milli ára en að þessu sinni hafa þeir haldist nánast óbreyttir. Þannig að þetta verða örugglega jafnir og spennandi leikir." Ómar Rafnsson, formaður KKÍ, á von á skemmtilegu körfuboltatímabili en það hefst formlega með þessum tveimur leikjum. "Ég finn fyrir miklum meðbyr með körfuboltahreyfingunni. Sérstaklega er unglingastarfið hjá félögunum sem er að alltaf að bæta gæði íslensks körfubolta. Unglingalandsliðin hafa náð frábærum árangri og við erum nú eina Norðulandaþjóðin í karlaflokki sem á landslið í A-deild og það segir mikið um það góða starf sem unnið hefur verið á undanförnum árum. Við höfum líklega aldrei átt fleiri atvinnumenn í körfubolta og núna að það sýnir hversu langt er hægt að ná ef menn eru tilbúnir til þess að leggja mikið á sig." Báðir leikirnir fara fram á heimavelli Íslandsmeistarana í karla- og kvennaflokki, í Keflavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×