Miðjan tekur yfir Sjálfstæðisflokk 22. september 2005 00:01 Valdaskiptin í Sjálfstæðisflokknum virðast ætla að ganga svo smurt fyrir sig að andstæðingar flokksins hljóta að hafa áhyggjur. Enn sem komið er fær maður ekki séð að neitt sé hæft í kenningum um að flokkurinn lendi í vandræðum þegar Davíð hættir, að hann hljóti gliðna í sundur þegar hins sterka leiðtoga nýtur ekki við líkt og gerðist með breska íhaldið þegar Thatcher hætti. Þvert á móti – maður skynjar vissan létti. Ekki síst hjá sjálfstæðismönnum. Þeir sjá ýmis tækifæri í stöðunni. Allt ber þetta merki vel hannaðrar atburðarásar. Geir Haarde tekur við formennsku, hann verður kosinn með standandi lófataki á landsfundi í október. Þorgerður Katrín verður kjörin varaformaður með miklum yfirburðum. Kristján Þór Júlíusson á Akureyri mun ekki ríða feitum hesti frá viðureign við hana. Líklega er framboð hans hugsað til að hann stimpli sig inn sem leiðtogi flokksins á Norðurlandi. Sennilega væri þó heppilegast fyrir hann að draga sig til baka, annars er við því að búast að hann fái útreið í kosningunni. --- --- --- Sjálfstæðisflokkurinn var gagnrýndur fyrir það í síðustu kosningum hversu hlutur kvenna var lélegur. Með kjöri Þorgerðar lagast það til muna. Nú eru tveir af ráðherrum flokksins konur, sjálfstæðiskona er forseti þingsins , auk þess sem tvær konur hafa að undanförnu bæst við í þingmannahóp flokksins vegna karla sem hverfa á braut. Þannig eiga jafnréttismálin varla að há flokknum að marki á næstunni. Þar hverfur eitt sóknarfæri Samfylkingarinnar. --- --- --- Það eru engir organdi hægrimenn sem sitja í ríkisstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn – þetta er allt að verða mjög miðjumoðslegt. Nú bætist við Einar K. Guðfinnsson um leið og Árni Mathiesen færist í fjármálaráðuneytið. Árni hefur tækifæri til að verða einn af helstu leiðtogum flokksins – það var skynsamlegt hjá honum að keppa ekki um varaformansembættið við Þorgerði Katrínu. Fyrir í stjórninni eru svo Geir Haarde, Sturla Böðvarsson, Sigríður Anna Þórðardóttir – og Björn Bjarnason. Björn hefur gefið upp á bátinn drauma um að ná æðstu metorðum í Sjálfstæðisflokknum. Björn hefur verið harðasti stuðningsmaður Davíðs; manni finnst eins og fjari dálítið undan honum við brotthvarf foringjans mikla. Milli Björns og Geirs eru engir sérstakir kærleikar. Maður spyr hversu Björn ætlar að vera lengi áfram í pólitík? --- --- --- Hægrimennirnir í flokknum hljóta að vera áhyggjufullir yfir þessari framrás miðjumannanna. Nú leggur Borgar Þór Einarsson, fóstursonur Geirs Haarde, til atlögu við vígi frjálshyggjunnar í SUS. Hann telst nokkuð sigurstranglegur í þeim slag. Einnig verður forvitnilegt að sjá hvernig spilast úr prófkjörinu í Reykjavík. Hægri armurinn, menn eins og Hannes og Gunnlaugur Sævar, styðja Gísla Martein meðan Geirsarmurinn er hallur undir Vilhjálm Þ. Við þessar kringumstæður virðist áður boðað framboð frjálshyggjumanna í næstu kosningum líklegra en áður. Þó er tæplega að búast við neinum stórátökum í Sjálfstæðisflokknum. Maður sér ekki að séu nein stórkostleg ágreiningsmál framundan – nema þá að krónan fari endanlega til andskotans. Maður sér til dæmis ekki að Geir og Þorgerður muni hefja stórsókn til að einkavæða í heilbrigðiskerfinu eða taka upp skólagjöld í stórum stíl. Landsfundurinn verður líklega halellújasamkoma þar sem foringinn Davíð verður kvaddur með klökkva en Geir og Þorgerður valin til forystu með miklu samkenndarþeli. --- --- --- Sjálfstæðisflokkurinn ætti að geta siglt hægfara siglingu næstu árin og höfðað vel inn á miðjuna þar sem flestir kjósendurnir eru. Þannig verður Morgunblaðinu að ósk sinni. Fyrir vikið mun Samfylkingin lenda í enn meiri vandræðum með að skilgreina sjálfa sig – hún hefur sífellt verið að mæla sig við Davíð síðustu árin. Það er erfitt að missa andstæðing af þeirri stærðargráðu og fá í staðinn pent fólk sem gefur lítinn höggstað á sér. Framsóknarflokkurinn gæti hins vegar eins átt á hættu að þurrkast út. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sertral eða sálfræðimeðferð Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun
Valdaskiptin í Sjálfstæðisflokknum virðast ætla að ganga svo smurt fyrir sig að andstæðingar flokksins hljóta að hafa áhyggjur. Enn sem komið er fær maður ekki séð að neitt sé hæft í kenningum um að flokkurinn lendi í vandræðum þegar Davíð hættir, að hann hljóti gliðna í sundur þegar hins sterka leiðtoga nýtur ekki við líkt og gerðist með breska íhaldið þegar Thatcher hætti. Þvert á móti – maður skynjar vissan létti. Ekki síst hjá sjálfstæðismönnum. Þeir sjá ýmis tækifæri í stöðunni. Allt ber þetta merki vel hannaðrar atburðarásar. Geir Haarde tekur við formennsku, hann verður kosinn með standandi lófataki á landsfundi í október. Þorgerður Katrín verður kjörin varaformaður með miklum yfirburðum. Kristján Þór Júlíusson á Akureyri mun ekki ríða feitum hesti frá viðureign við hana. Líklega er framboð hans hugsað til að hann stimpli sig inn sem leiðtogi flokksins á Norðurlandi. Sennilega væri þó heppilegast fyrir hann að draga sig til baka, annars er við því að búast að hann fái útreið í kosningunni. --- --- --- Sjálfstæðisflokkurinn var gagnrýndur fyrir það í síðustu kosningum hversu hlutur kvenna var lélegur. Með kjöri Þorgerðar lagast það til muna. Nú eru tveir af ráðherrum flokksins konur, sjálfstæðiskona er forseti þingsins , auk þess sem tvær konur hafa að undanförnu bæst við í þingmannahóp flokksins vegna karla sem hverfa á braut. Þannig eiga jafnréttismálin varla að há flokknum að marki á næstunni. Þar hverfur eitt sóknarfæri Samfylkingarinnar. --- --- --- Það eru engir organdi hægrimenn sem sitja í ríkisstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn – þetta er allt að verða mjög miðjumoðslegt. Nú bætist við Einar K. Guðfinnsson um leið og Árni Mathiesen færist í fjármálaráðuneytið. Árni hefur tækifæri til að verða einn af helstu leiðtogum flokksins – það var skynsamlegt hjá honum að keppa ekki um varaformansembættið við Þorgerði Katrínu. Fyrir í stjórninni eru svo Geir Haarde, Sturla Böðvarsson, Sigríður Anna Þórðardóttir – og Björn Bjarnason. Björn hefur gefið upp á bátinn drauma um að ná æðstu metorðum í Sjálfstæðisflokknum. Björn hefur verið harðasti stuðningsmaður Davíðs; manni finnst eins og fjari dálítið undan honum við brotthvarf foringjans mikla. Milli Björns og Geirs eru engir sérstakir kærleikar. Maður spyr hversu Björn ætlar að vera lengi áfram í pólitík? --- --- --- Hægrimennirnir í flokknum hljóta að vera áhyggjufullir yfir þessari framrás miðjumannanna. Nú leggur Borgar Þór Einarsson, fóstursonur Geirs Haarde, til atlögu við vígi frjálshyggjunnar í SUS. Hann telst nokkuð sigurstranglegur í þeim slag. Einnig verður forvitnilegt að sjá hvernig spilast úr prófkjörinu í Reykjavík. Hægri armurinn, menn eins og Hannes og Gunnlaugur Sævar, styðja Gísla Martein meðan Geirsarmurinn er hallur undir Vilhjálm Þ. Við þessar kringumstæður virðist áður boðað framboð frjálshyggjumanna í næstu kosningum líklegra en áður. Þó er tæplega að búast við neinum stórátökum í Sjálfstæðisflokknum. Maður sér ekki að séu nein stórkostleg ágreiningsmál framundan – nema þá að krónan fari endanlega til andskotans. Maður sér til dæmis ekki að Geir og Þorgerður muni hefja stórsókn til að einkavæða í heilbrigðiskerfinu eða taka upp skólagjöld í stórum stíl. Landsfundurinn verður líklega halellújasamkoma þar sem foringinn Davíð verður kvaddur með klökkva en Geir og Þorgerður valin til forystu með miklu samkenndarþeli. --- --- --- Sjálfstæðisflokkurinn ætti að geta siglt hægfara siglingu næstu árin og höfðað vel inn á miðjuna þar sem flestir kjósendurnir eru. Þannig verður Morgunblaðinu að ósk sinni. Fyrir vikið mun Samfylkingin lenda í enn meiri vandræðum með að skilgreina sjálfa sig – hún hefur sífellt verið að mæla sig við Davíð síðustu árin. Það er erfitt að missa andstæðing af þeirri stærðargráðu og fá í staðinn pent fólk sem gefur lítinn höggstað á sér. Framsóknarflokkurinn gæti hins vegar eins átt á hættu að þurrkast út.