Bjargi sér hver sem betur getur 4. september 2005 00:01 Hvað á maður að halda um atburðina í Bandaríkjunum? Bjargi sér hver sem betur getur virðist vera mottóið - "every man for himself." Tilhneigingin er sú að láta hina veikari lönd og leið. Fátæklingar eru skildir eftir og gamalmenni. Það eru engar skipulagðar ferðir frá borginni, ekkert opinbert átak til að koma fólkinu burt. Engin stjórn á neinu. Bara gefin út viðvörun - farið. Þeir sem ekki komast verða eftir. Leiðir út úr borginni eru tepptar, allir skrölta á sínum einkabíl. --- --- --- Í mörgu tilliti sér maður hversu þunnt skænið er milli siðmenningar og glundroða. Óþjóðalýður fer um, rænir og ruplar, nauðgar og myrðir. Herliði er skipað á vettvang - sagt að skjóta án þess að spyrja. Bandaríkin eru að sönnu miskunnarlausara samfélag en við eigum að venjast. Fyrst eftir fellibylinn voru byssubúðir rændar. Hvað er að í samfélagi sem fellur undireins niður i botnlaust ofbeldi á svona hörmungatíma? Hjálpin kemur alltof seint. Fimm dögum eftir fárviðrið hefur engin aðstoð borist til margra. Hryllingurinn í Superdrome íþróttahöllinni virðist ólýsanlegur, á nokkuð yfirlætisfullan hátt bera menn ástandið saman við Bangladesh og þriðja heiminn. Það er skortur á flutningatækjum, mat, lyfjum, læknishjálp og hjálparsveitafólki - þetta er í ríkasta landi heims. --- --- --- George Bush hefur sýnt hversu lítið er varið í hann sem leiðtoga. Daginn eftir storminn flaug hann til Kaliforníu á fund með bisnessmönnum sem styðja hann. Hann kveður sér hljóðs að minnsta kosti degi of seint - það er ekki í fyrsta skipti að Bush er með seinni skipunum þegar eitthvað bjátar á - og þá er tómur vandræðagangur á honum. Bush lætur útúr sér vitleysu eins og að enginn hafi séð fyrir að flóðgarðarnir myndu bresta, viðurkennir að hjálpin sé ónóg, en segist vona að menn ætli ekki að fara að gera sér pólitískan mat úr þessu. Leiðarahöfundar um öll Bandaríkin taka ekkert mark á honum, forsetinn fær útreið alls staðar, meira að segja í fjölmiðlum sem hafa verið hvað hliðhollastir honum. Margir taka svo sterkt til orða að segja að viðbrögðin við fellibylnum séu þjóðarskömm. --- --- --- Því hefur verið spáð að mestu hamfarir sem geti gengið yfir Bandaríkin séu stór hryðjuverkaárás, jarðskjálfti í San Fransisco eða fellibylur í New Orleans. Í marga daga mátti sjá Katrínu stefna í átt til Louisiana yfir Mexíkóflóa. Um seinan rennur upp fyrir mönnum að fé hefur verið skorið niður til flóðavarna þarna á suðurströndinni. Þjóðvarðliðar sem ella væru við björgunarstörf eru uppteknir í Írak - þar þurfa þeir að vega upp á móti því að bandaríski herinn er alltof fáliðaður til að sinna öllum þeim verkefnum sem alríkisstjórnin útdeilir honum. Spurningin sem margir spyrja í framhaldinu er af hverju Írak sé mikilvægara en Louisiana og Mississippi - eins og ekki minni maður en Pat Buchanan orðar það. --- --- --- Allt ber þetta vott um slaka stjórnarhætti. En það er líka spurning um hegðun borgaranna sjálfra í svona neyðarástandi, hjálpsemi þeirra og fórnfýsi. Auðvitað eru ýmis dæmi um slíkt. Til dæmis er sagt fra verktaka sem fór sjálfur að bera efni í flóðgarða, meðan tilkynnt var að sveitir frá ríkinu kæmust ekki leiðar sinnar. En það eru líka furðu mörg dæmi um eigingirni og sérgæsku. Hótel í Houston vísa flóttamönnum á dyr til að rýma fyrir fólki sem er að koma að sjá fótboltaleik i háskóladeildinni. Athyglin beinist þó ekki að stóru olíufélögunum sem notuðu hörmungarnar til að snarhækka verð á olíu - þeir eru hinir raunverulegu ræningjar, ekki fólkið í New Orleans, skrifar dálkahöfundurinn Derrick Jackson í Boston Globe. --- --- --- Paul Krugman segir í pistli sínum í New York Times að núverandi leiðtogar Bandaríkjanna taki hlutverk sitt ekki alvarlega, þeir séu áfjáðir í að heyja stríð, en þeim finnist lítið til þess koma að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða, veita öryggi eða bjarga þeim sem eru í nauðum staddir. Og þeir fari aldrei fram á sameiginlegar fórnir - "shared sacrifice" eins og Krugman kallar það. Þegar atburðir eins og þessir verða fer maður að velta fyrir sér hlutverki stjórnmálamanna. Á svona tímum þurfa þeir nefnilega að veita svör. Það er mjög í tísku að líta niður á stjórnmálamenn, gera lítið úr valdi þeirra, tala jafnvel um að þeir séu óþarfir. Og vissulega geta stjórnmálamenn verið lítilsigldir og atvinnugreinin stundum ómerkileg og mannskemmandi. En þegar eitthvað bjátar á, náttúruhamfarir, hryðjuverk, farsóttir eða stríð, ætlumst við til þess að þeir standi sig, veiti leiðsögn - ekki bankamenn, viðskiptajöfrar eða sjónvarpsstjörnur. Og þess vegna er líka mikilvægt að vanda valið á stjórnmálamönnum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sertral eða sálfræðimeðferð Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun
Hvað á maður að halda um atburðina í Bandaríkjunum? Bjargi sér hver sem betur getur virðist vera mottóið - "every man for himself." Tilhneigingin er sú að láta hina veikari lönd og leið. Fátæklingar eru skildir eftir og gamalmenni. Það eru engar skipulagðar ferðir frá borginni, ekkert opinbert átak til að koma fólkinu burt. Engin stjórn á neinu. Bara gefin út viðvörun - farið. Þeir sem ekki komast verða eftir. Leiðir út úr borginni eru tepptar, allir skrölta á sínum einkabíl. --- --- --- Í mörgu tilliti sér maður hversu þunnt skænið er milli siðmenningar og glundroða. Óþjóðalýður fer um, rænir og ruplar, nauðgar og myrðir. Herliði er skipað á vettvang - sagt að skjóta án þess að spyrja. Bandaríkin eru að sönnu miskunnarlausara samfélag en við eigum að venjast. Fyrst eftir fellibylinn voru byssubúðir rændar. Hvað er að í samfélagi sem fellur undireins niður i botnlaust ofbeldi á svona hörmungatíma? Hjálpin kemur alltof seint. Fimm dögum eftir fárviðrið hefur engin aðstoð borist til margra. Hryllingurinn í Superdrome íþróttahöllinni virðist ólýsanlegur, á nokkuð yfirlætisfullan hátt bera menn ástandið saman við Bangladesh og þriðja heiminn. Það er skortur á flutningatækjum, mat, lyfjum, læknishjálp og hjálparsveitafólki - þetta er í ríkasta landi heims. --- --- --- George Bush hefur sýnt hversu lítið er varið í hann sem leiðtoga. Daginn eftir storminn flaug hann til Kaliforníu á fund með bisnessmönnum sem styðja hann. Hann kveður sér hljóðs að minnsta kosti degi of seint - það er ekki í fyrsta skipti að Bush er með seinni skipunum þegar eitthvað bjátar á - og þá er tómur vandræðagangur á honum. Bush lætur útúr sér vitleysu eins og að enginn hafi séð fyrir að flóðgarðarnir myndu bresta, viðurkennir að hjálpin sé ónóg, en segist vona að menn ætli ekki að fara að gera sér pólitískan mat úr þessu. Leiðarahöfundar um öll Bandaríkin taka ekkert mark á honum, forsetinn fær útreið alls staðar, meira að segja í fjölmiðlum sem hafa verið hvað hliðhollastir honum. Margir taka svo sterkt til orða að segja að viðbrögðin við fellibylnum séu þjóðarskömm. --- --- --- Því hefur verið spáð að mestu hamfarir sem geti gengið yfir Bandaríkin séu stór hryðjuverkaárás, jarðskjálfti í San Fransisco eða fellibylur í New Orleans. Í marga daga mátti sjá Katrínu stefna í átt til Louisiana yfir Mexíkóflóa. Um seinan rennur upp fyrir mönnum að fé hefur verið skorið niður til flóðavarna þarna á suðurströndinni. Þjóðvarðliðar sem ella væru við björgunarstörf eru uppteknir í Írak - þar þurfa þeir að vega upp á móti því að bandaríski herinn er alltof fáliðaður til að sinna öllum þeim verkefnum sem alríkisstjórnin útdeilir honum. Spurningin sem margir spyrja í framhaldinu er af hverju Írak sé mikilvægara en Louisiana og Mississippi - eins og ekki minni maður en Pat Buchanan orðar það. --- --- --- Allt ber þetta vott um slaka stjórnarhætti. En það er líka spurning um hegðun borgaranna sjálfra í svona neyðarástandi, hjálpsemi þeirra og fórnfýsi. Auðvitað eru ýmis dæmi um slíkt. Til dæmis er sagt fra verktaka sem fór sjálfur að bera efni í flóðgarða, meðan tilkynnt var að sveitir frá ríkinu kæmust ekki leiðar sinnar. En það eru líka furðu mörg dæmi um eigingirni og sérgæsku. Hótel í Houston vísa flóttamönnum á dyr til að rýma fyrir fólki sem er að koma að sjá fótboltaleik i háskóladeildinni. Athyglin beinist þó ekki að stóru olíufélögunum sem notuðu hörmungarnar til að snarhækka verð á olíu - þeir eru hinir raunverulegu ræningjar, ekki fólkið í New Orleans, skrifar dálkahöfundurinn Derrick Jackson í Boston Globe. --- --- --- Paul Krugman segir í pistli sínum í New York Times að núverandi leiðtogar Bandaríkjanna taki hlutverk sitt ekki alvarlega, þeir séu áfjáðir í að heyja stríð, en þeim finnist lítið til þess koma að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða, veita öryggi eða bjarga þeim sem eru í nauðum staddir. Og þeir fari aldrei fram á sameiginlegar fórnir - "shared sacrifice" eins og Krugman kallar það. Þegar atburðir eins og þessir verða fer maður að velta fyrir sér hlutverki stjórnmálamanna. Á svona tímum þurfa þeir nefnilega að veita svör. Það er mjög í tísku að líta niður á stjórnmálamenn, gera lítið úr valdi þeirra, tala jafnvel um að þeir séu óþarfir. Og vissulega geta stjórnmálamenn verið lítilsigldir og atvinnugreinin stundum ómerkileg og mannskemmandi. En þegar eitthvað bjátar á, náttúruhamfarir, hryðjuverk, farsóttir eða stríð, ætlumst við til þess að þeir standi sig, veiti leiðsögn - ekki bankamenn, viðskiptajöfrar eða sjónvarpsstjörnur. Og þess vegna er líka mikilvægt að vanda valið á stjórnmálamönnum.