Innlent

Ná sjónvarpssendingum um ADSL

Annar áfangi stafrænnar sjónvarpsþjónustu Símans um ADSL-kerfi sín er hafinn. Í vikunni hafa 11 bæjarfélög á landsbyggðinni bæst í hóp þeirra 20 bæjarfélaga sem undanfarið hafa fengið aðgang að stafrænu sjónvarpi um ADSL. Um er að ræða bæjarfélög sem þegar í dag ná útsendingum Skjás eins en eru í fyrsta sinn að fá aðgang að erlendum sjónvarpsrásum. Í tilkynningu frá Símanum segir að félagið og Skjár einn hafi hafið hringferð sína til fyrstu tíu bæjarfélaganna í lok nóvember á síðasta ári. Þau bæjarfélög sem söfnuðu fyrir sjónvarpssendum til að geta tekið á móti merki Skjás eins hafi notið forgangs í aðgangi að sjónvarpi um ADSL. Viðtökur við þjónustunni hafi á öllu stöðunum verið einstaklega góðar og eftirspurn hafi verið framar vonum. Með stafrænni sjónvarpsþjónustu Símans er sjónvarpsmerkið flutt um símalínur gegnum ADSL-tengingar í stað hefðbundinnar þráðlausrar dreifingar. Í þessum áfanga munu núverandi viðskiptavinir ADSL-þjónustu Símans njóta forgangs hvað varðar uppsetningu þjónustunnar. Með því að dreifa stafrænu sjónvarpsefni um ADSL-kerfið er Síminn að nýta þá miklu fjárfestingu sem liggur í fjarskiptakerfum fyrirtækisins og flýta fyrir almennri uppbyggingu dreifikerfisins víðar um landið umfram það sem áður hefur verið hagkvæmt, eins og segir í tilkynningunni. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×