Íris breytti öllu á Nesinu

Haukakonur tryggðu sér sæti í undanúrslitum DHL-deildar kvenna með 13 marka sigri á Fram, 17-30, í öðrum leik liðanna í 8 liða úrslitum í gær en á Nesinu vann Grótta/KR 17-15 sigur á Stjörnunni og liðin mætast því í úrslitaleik á miðvikudaginn. 17 ára markvörður Gróttu/KR, Íris Björk Símonardóttir, lokaði markinu í seinni hálfleik, varði þá 12 af 16 skotum og sá til þess að Grótta/KR vann upp sjö marka forskot og tryggði sér oddaleik á miðvikudag. Íris varði öll skot utan af velli nema eitt. „Ég er í skýjununm og hálforðlaus yfir þessu, því það á ekki að vera hægt að koma svona til baka. Stelpurnar sýndu mikinn andlegan styrk, ég sá engan uppgjafarsvip á neinni í liðinu þótt við værum sjö mörkum undir í hálfleik og etta var síðan ótrúlega glæsileg innkoma hjá Írisi," sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu/KR.