Innlent

Lögreglumaður greiði skaðabætur

Lögreglumaður, sem stöðvaði bifhjól með því að aka í veg fyrir það á Ægissíðu síðastliðið vor, var dæmdur til að greiða ökumanni bifhjólsins skaðabætur í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Lögreglumaðurinn ók vestur Ægissíðu þegar hann var að leita að mönnum sem höfðu ekið hratt um borgina á bifhjólum en lögreglunni hafði ekki tekist að stöðva för mannanna. Lögreglumaðurinn varð var við eitt bifhjólanna þar sem því var ekið eftir Ægissíðunni og ók hann yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir hjólið með þeim afleiðingum að það hafnaði framan á lögreglubifreiðinni sem var þá að hluta til á röngum vegarhelmingi. Ökumaður bifhjólsins kastaðist af því og hlaut nokkur meiðsl af. Í dóminum segir að þegar ákærði hafi ekið í veg fyrir bifhjólið hafi hann gert það í slíkri skyndingu að ökumaður bifhjólsins hafi ekki haft ráðrúm til þess að afstýra slysinu. Ákærði hafi því stefnt ökumanninum í augljósa og verulega hættu. Lögreglumaðurinn var dæmdur til að greiða 200 þúsund krónur í sekt og ökumanni bifhjólsins 195 þúsund krónur í skaðabætur. Lögreglumaðurinn var einnig dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, 150 þúsund krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×