Innlent

Játar að hafa banað Sri

Hákon Eydal játaði fyrir dómi í morgun að hafa banað Sri Rhamawati, barnsmóður sinni og fyrrverandi sambýliskonu. Börn hennar krefja hann um tæplega tuttugu og tvær milljónir króna í bætur. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hákoni er gefið að sök að hafa 4. júlí síðastliðinn veist að Sri á heimili sínu við Stórholt í Reykjavík með kúbeini og slegið hana með því fjórum sinnum í höfuðið svo lífshættulegir höfuðáverkar hlutust af, og að hafa í þrígang vafið taubelti um háls hennar og þrengt að með þeim afleiðingum að hún lést af völdum kyrkingar. Þetta telst varða við 211. grein hegningarlaga þar sem viðurlögin eru allt að ævilangt fangelsi en ekki skemmra en fimm ár. Fyrir dómi í morgun játið Hákon að hafa banað Sri en sagðist ekki viss um hvort hann hefði slegið hana fjórum sinnum í höfuðið eða sjaldnar, né hversu oft hann hefði þrengt belti um háls hennar. Börn Sri krefjast skaðabóta, samanlagt tæplega 22 milljóna króna. Hákon sagðist ekki gera athugasemdir við þær kröfur. Milliþinghald verður í málinu 20. janúar þar sem meðal annars verður fjallað um mat á geðheilbrigði Hákonar en hann er ósáttur við niðurstöðu þeirrar rannsóknar sem gerð var á honum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×