Sport

Manciel kominn til baka

Bandaríkjamaðurinn Michael Manciel, sem lék með Haukum á síðasta tímabili í Intersportdeildinni í körfubolta, er genginn til liðs við félagið á nýjan leik og mun spila með því til loka tímabilsins. Manciel leysir landa sinn Damon Flint af hólmi en Flint spilaði tvo leiki með Haukum fyrir jól og þótti ekki standa undir væntingum. Sverrir Hjörleifsson, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, sagði í samtali við Fréttablaðið að Flint kæmi ekki aftur til Íslands og að Haukar væru mjög ánægðir með að hafa fengið Manciel til baka á nýjan leik. "Við vorum ekki sáttir við Flint og Manciel er happafengur ef hann skilar sömu tölum og fyrir jól í fyrra," sagði Sverrir. Manciel var lykilmaður í liði Hauka í fyrra og skoraði 24,3 stig og tók 13 fráköst í deildinni að meðaltali. Haukar eru í níunda sæti deildarinnar eins og staðan er í dag og Sverrir sagði það vera undir væntingum. "Það er ekkert launungarmál að við ætluðum okkur að vera ofar. Þetta er óvænt staða fyrir okkur ef svo má segja og fyrsta verk liðsins eftir áramót verður að koma liðinu út úr þeim hremmingum sem það er í. Við stefnum að sjálfsögðu á sæti í úrslitakeppninni en það passar einhvern veginn ekki, miðað við stöðu okkar í dag, að stefna á eitthvert ákveðið sæti," sagði Sverrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×