Innlent

Lítið fór fyrir skólamjólk í gær

Kjaradeila sveitarfélaga og kennara raskar hátíðahöldum í tilefni af alþjóðaskólamjólkurdeginum sem haldinn var hátíðlegur í fimmta sinn í gær. Í tilefni dagsins var boðað til teiknisamkeppni meðal fjórðubekkjarnemenda landsins. Teikningum átti að skila inn til umsjónarkennara og 25 þúsund króna verðlaun fyrir hverja af 10 bestu myndunum áttu að renna til bekkjar vinningshafans. "Verkfallið setur að sjálfsögðu nokkurt strik í reikninginn," segir Sigurður Mikaelsson, sölustjóri Mjólkurbús Flóamanna og fulltrúi Markaðsnefndar mjólkuriðnaðarins. "Við vorum með dálítinn lúðrablástur í fyrra þegar við tókum þátt í fyrsta sinn, en að sjálfsögðu er ekki um það að ræða í ár." Hann segir þó að haldið verði áfram með myndasamkeppnina og að veggspjald þar að lútandi hafi verið sent í skóla landsins. Frestur til að skila inn myndum er fram að jólafríi nemenda og sagðist Sigurður hafa alla trú á að verkfalli yrði lokið fyrir þann tíma. "Menn hljóta að leita til þess allra leiða," sagði hann. Alþjóðaskólamjólkurdagurinn var tekinn upp að undirlagi Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Róm í þeim tilgangi að stuðla að aukinni mjólkurneyslu um heim allan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×