Íslenski boltinn

Ragnar Bragi stimplaði sig inn með tveimur mörkum í toppslagnum | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Keflavík og Fylkir skildu jöfn, 3-3, í uppgjöri tveggja efstu liðanna í Inkasso-deildinni í kvöld.

Ragnar Bragi Sveinsson, sem Fylkir fékk á láni frá Víkingi R. fyrr í vikunni, skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik fyrir Árbæjarliðið í sumar.

Seinna mark Ragnars Braga kom á 88. mínútu þegar hann jafnaði metin í 3-3 sem urðu lokatölur leiksins. Fylkir er því áfram með tveggja stiga forskot á Keflavík á toppi deildarinnar.

Marko Nikolic kom Keflavík í 1-0 á 23. mínútu eftir skelfileg mistök Arons Snæs Friðrikssonar í marki Fylkis en Ragnar Bragi jafnaði metin sex mínútum fyrir hálfleik.

Lasse Rise, nýi Daninn í herbúðum Keflvíkinga, kom heimamönnum yfir á nýjan leik á 64. mínútu en sjö mínútum síðar jafnaði Albert Brynjar Ingason metin með sínu sjöunda marki í sumar.

Aðeins tveimur mínútum eftir jöfnunarmark Alberts kom Rise Keflavík yfir í þriðja sinn í leiknum. Það mark dugði þó ekki til sigurs því Ragnar Bragi jafnaði metin tveimur mínútum fyrir leikslok eins og áður sagði.

Mörkin úr leik Keflavíkur og Fylkis má sjá í spilaranum hér að ofan.

Þór færðist nær efstu liðunum með 2-0 sigri á Þrótti á heimavelli.

Aron Kristófer Lárusson og Orri Freyr Hjaltalín skoruðu mörk Þórsara sem hafa verið sjóðheitir upp á síðkastið.

Norðanmenn hafa unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum og gert eitt jafntefli. Þór er með 25 stig í 4. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Þrótti sem er í sætinu fyrir ofan.

Selfoss lyfti sér upp í 5. sæti deildarinnar með 0-2 útisigri á Gróttu.

Elvar Ingi Vignisson skoraði bæði mörk Selfyssinga sem voru einum fleiri frá 29. mínútu þegar Gróttumaðurinn Andri Þór Magnússon var rekinn af velli.

Grótta er í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar með átta stig, þremur stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×