Innlent

„Ekki gott að fólk sé enda­laust að sulla svona í víni“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Björn Snæbjörnsson er formaður Landssambands eldri borgara.
Björn Snæbjörnsson er formaður Landssambands eldri borgara. Vísir/Vilhelm

Formaður Landsambands eldri borgara segir fréttir af aukinni áfengisdrykkju eldra fólks hafa komið verulega á óvart. Vandamálið sé falið og þörf sé á fræðslu til eldri borgara um skaðsemi áfengis.

Greint var frá aukinni drykkju meðal eldra fólks í kvöldfréttum Sýnar í gær. Yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítalanum sagði vandamálið falið og að vikulega væri veitt ráðgjöf til hjúkrunarheimila og heimaþjónustu vegna drykkju eldra fólks.

„Já þetta auðvitað sló mann heilmikið vegna þess að þetta hefur ekki komið, inn á okkar borð hjá Landssambandi eldri borgara. Auðvitað hafði maður heyrt að þetta væri eitthvað vaxandi vandamál en ég skal viðurkenna að þetta kom mér verulega á óvart,“ sagði Björn Snæbjörnsson formaður Landssambands eldri borgara.

„Þetta er náttúrulega falið vandamál og nákvæmlega eins og við höfum verið að ræða mikið í sambandi við ofbeldi gagnvart eldra fólki. Þetta er bara sama dæmi, falið vandamál sem er nauðsynlegt að skoða betur og spurning um meiri fræðslu,“ bætir Björn við.

„Það er heilmikil skaðsemi“

Þegar fólk hætti að vinna geti það misst félagsleg tengsl og glímt við einmanaleika. Slíkt bjóði hættunni heim.

„Þá er svolítil hætta á því að þegar að þegar menn eru ekki með eitthvað sem getur tekið við af vinnunni, einhverjar tómstundir eða slíkt þá er hætta á að menn fari kannski að fá sér fleiri bjóra og ýmislegt annað.“

Talið er að áfengi sé ástæða tæplega fjórðungs heimsókna á bráðamóttöku og þá fylgir drykkju áfengis auknar líkur á fjölmörgum sjúkdómum. Björn segir þörf á fræðslu til eldra fólks um afleiðingar áfengisdrykkju.

„Það er heilmikil skaðsemi og ég held að það þurfi að koma betur fram og fólk átti sig ekki á því að það er ekki mjög gott að fólk sé að sulla endalaust svona í víni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×