Fótbolti

Rauk út eftir lætin í blaða­mönnum

Sindri Sverrisson skrifar
Pape Thiaw var skiljanlega æstur þegar hann sá það sem gekk á í úrslitaleik Sengal við Marokkó í gær.
Pape Thiaw var skiljanlega æstur þegar hann sá það sem gekk á í úrslitaleik Sengal við Marokkó í gær. Getty/Ulrik Pedersen

Sú ótrúlega atburðarás sem varð til undir lok úrslitaleik Afríkumótsins í fótbolta í gær hélt áfram eftir að leik lauk og lætin voru síst minni á blaðamannafundi senegalska landsliðsþjálfarans.

Eins og fjallað var um á Vísi í gærkvöld leystist úrslitaleikur Senegal og Marokkó upp í hreinan farsa, áður en Senegal varð að lokum Afríkumeistari með 1-0 sigri í framlengdum leik.

Í lok venjulegs leiktíma hafði Pape Thiaw, þjálfari Senegals, skipað leikmönnum sínum að yfirgefa völlinn, bálreiður yfir marki sem dæmt var af liðinu fyrir litlar sem engar sakir og svo vítaspyrnudómi fyrir Marokkó í kjölfarið.

Sadio Mané, stærsta stjarna senegalska liðsins, sá til þess að mönnum snerist hugur og kæmu aftur út á völlinn, Brahim Díaz tók svo vítið og reyndi vippu á mitt markið sem Edouard Mendy varði auðveldlega, og eins og fyrr segir skoraði Pape Gueye svo sigurmark Senegals í framlengingunni.

Liðið sem yfirgaf völlinn varð því Afríkumeistari á endanum og voru marokkóskir fjölmiðlamenn enn æfir yfir því sem á gekk, þegar Pape Thiaw mætti á blaðamannafund eftir leik.

Hann komst aldrei í að svara spurningum og var hreinlega baulaður út úr salnum af æstum blaðamönnum.

Þjálfari Marokkó, Walid Regragui, beindi líka spjótum sínum að Thiaw á sínum blaðamannafundi:

„Sú mynd sem hér var dregin upp af afrískum fótbolta er til skammar. Þjálfari sem lætur liðið sitt yfirgefa völlinn… Það sem Pape gerði lætur Afríku ekki líta vel út,“ sagði Regragui.

„Hann byrjaði þetta strax á blaðamannafundinum fyrir leik. Hann sýndi enga fágun. En hann er meistari og getur sagt það sem hann vill,“ sagði Regragui.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×