Erlent

Danir mátt­lausir gagn­vart rúss­nesku ógninni í 20 ár

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hugmyndir Trump um yfirtöku Bandaríkjanna á Grænlandi hafa mætt mikilli andstöðu bæði í Evrópu og heima fyrir. Menn bíða nú eftir því að sjá hvernig mál þróast í vikunni; hvort hann slær af eða heldur stefnu.
Hugmyndir Trump um yfirtöku Bandaríkjanna á Grænlandi hafa mætt mikilli andstöðu bæði í Evrópu og heima fyrir. Menn bíða nú eftir því að sjá hvernig mál þróast í vikunni; hvort hann slær af eða heldur stefnu. Getty/Tom Brenner

Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um Grænland á samfélagsmiðli sínum Truth Social í morgun, eftir óvenjulanga þögn. Evrópuleiðtogar réðu ráðum sínum í gær og munu funda áfram í vikunni um viðbrögð við hótunum Trump um viðbótartolla á átta Evrópuríki.

Bandaríkjaforseti sagði í færslu sinni að Atlantshafsbandalagið hefði sagt Dönum í 20 ár að þeir þyrftu að „koma rússnesku ógninni frá Grænlandi“. Því miður hefðu Danir ekki getað gert nokkurn skapaðan hlut í málinu. „Nú er tíminn og þetta verður gert!!!“ segir Trump.

New York Times segir ráðamenn í Evrópu enn hallast að því að reyna frekar að ná samningum við Trump en að grípa til hefndaraðgerða á borð við tolla. Þeir eru hins vegar einhuga í afstöðu sinni í málinu; framtíð Grænlands verði aðeins ákvörðuð af Grænlendingum og Dönum.

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, og Mar Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sögðu öll frá því í gær að þau hefðu rætt við Trump í síma. Öll komu afstöðu Evrópuríkjanna á framfæri en ekkert þeirra greindi frá viðbrögðum Trump. Þá hefur Hvíta húsið ekki tjáð sig um samtölin.

Hugmyndir Trump og samverkamanna hans um yfirtöku Bandaríkjanna á Grænlandi eru afar óvinsælar heima fyrir og hafa verið harðlega gagnrýndar af bæði Demókrötum og nokkrum Repúblikönum á þinginu. Gera má ráð fyrir að frumvörp til að takmarka vald forsetans til aðgerða gegn Grænlandi verði til umræðu í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×