Fótbolti

„Stoltur að fá þetta tæki­færi og tek því ekki sem sjálf­sögðum hlut“

Aron Guðmundsson skrifar
Alfreð Finnbogason hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Rosenborg og skrifar undir fimm ára samning hjá félaginu
Alfreð Finnbogason hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Rosenborg og skrifar undir fimm ára samning hjá félaginu Mynd: Rosenborg BK

Al­freð Finn­boga­son, fyrr­verandi at­vinnu- og lands­liðs­maður í fót­bolta, hefur verið ráðinn yfir­maður knatt­spyrnumála hjá norska stór­liðinu Rosen­borg. Áskorunin að koma félaginu aftur á toppinn í norska boltanum heillar Al­freð.

„Það er auðvitað stærðar­gráða liðsins sem gerði þetta að rosa­lega spennandi kosti fyrir mig. Það er ekkert sjálf­gefið að fá svona boð svona snemma á öðrum ferlinum hjá mér,“ segir Al­freð í sam­tali við íþrótta­deild Sýnar en það var í nóvember árið 2024 sem takka­skórnir fóru á hilluna hjá kappanum eftir farsælan feril með félagsliðum og lands­liði Ís­lands.

„Þegar að þetta kom upp hafði ég náttúru­lega mikinn áhuga á því að vita meira og með hverju spjalli sem við áttum varð ég spenntari og spenntari fyrir þessu.“

Samtöl sem urðu alvarlegri eftir því sem á leið

Al­freð hefur mark­visst í gegnum árin menntað sig í fót­boltafræðunum og eftir að skórnir fóru á hilluna hafði hann starfað sem tækni­legur ráðgjafi hjá Breiða­bliki. Stuttu eftir að hann lét af störfum þar kom kallið frá Rosen­borg, stór­liði á skandinavískan mæli­kvarða sem hefur áður gert sig gildandi í Evrópu­boltanum.

„Þetta gerðist þannig að ég fékk sím­tal í byrjun desember, hvort ég hefði áhuga á að hefja sam­tal við lið í Skandinavíu og kom þá í ljós að Rosen­borg væri liðið sem um ræddi. Ég var auðvitað opinn fyrir því. Við áttum nokkra styttri góða fundi og svo fór þetta aðeins áfram, varð al­var­legra. Í kringum jól og nýtt ár tóku við lengri fundir þar sem var farið meira á dýptina og smám saman varð ég einn af þeim fáu sem fáu í þeirri stöðu að vera valdir.“

 Alfreð var heiðraður fyrir sín störf í þágu þjóðar með íslenska landsliðinuvísir/Anton

Það var svo núna í upp­hafi árs sem Al­freð var tjáð að Rosen­borg vildi hefja við hann viðræður, fá hann til starfa sem yfir­mann knatt­spyrnumála. Heiður og var Al­freð spenntur fyrir tækifærinu en það skipti hann líka miklu máli að sýn félagsins passaði við hans eigin.

„Fyrst og fremst var ég náttúru­lega bara mjög spenntur fyrir því að heyra frá þeim hver staðan á félaginu væri, hvaða pælingar þeir hafa. Líka bara spyrja þá opinna spurninga eins og af hverju þeir hafa áhuga á því að fá mig til starfa? Erum við með svipaðar hug­myndir? Þeir út­skýrðu mikið fyrir mér hver staðan væri og sömu­leiðis út­skýrði ég hvernig ég sæi þetta ef ég kæmi inn í starfið. Auðvitað fékk ég ekki langan tíma til þess að undir­búa mig fyrir allt sem tók við í ferlinu en ég reyndi náttúru­lega að gera það eins vel og ég gat.

Þetta var eitt­hvað sem ég var kannski að stefna að eftir nokkur ár, ég var ekki beint virkur í því að leita mér að ein­hverri vinnu á þessum tíma­punkti. Var bara að nýta tímann í að bæta sjálfan mig, tengsla­net mitt og allt sem því fylgir.“

Alfreð Finnbogason fagnar marki sínu á móti Argentínu á HM 2018Vísir/Getty

Blása ferskir vindar í Þrándheimi

Eins og kom fram áður er saga Rosen­borgar glæst. Um sigursælasta lið Noregs er að ræða. Liðið hefur tuttugu og sex sinnum orðið norskur meistari, oftar en nokkuð annað lið og bikar­meistara­titlarnir eru orðnir tólf. Undan­farin ár hafa hins vegar ekki verið gjöful. Rosen­borg vann síðast stóran titil heima fyrir árið 2018.

„Mark­miðin eru mjög skýr. Að koma Rosen­borg aftur á þann stað sem allir hérna vilja að þeir séu á. Vera á meðal topp þriggja bestu liða Noregs, spila í Evrópu­keppni á hverju ári og endur­lífga félagið og koma því á þann stað sem mér finnst og öllum hér finnst það eiga vera á. Þetta hefur verið mjög erfiður tími fyrir félagið. Rosen­borg varð síðast norskur meistari árið 2018, áttu góð ár þar á undan en á undan­förnum árum hefur félagið átt í fjár­hagsörðug­leikum. Það hafa verið teknar ákvarðanir hér sem eftir á hyggja voru ekki réttar fyrir félagið. Það blása ferskir vindar í félaginu núna, það er ungur fram­kvæmda­stjóri hér sem stýrir dag­legum verkum, þjálfarinn er ungur og spennandi og mikill vilji hér að ráðast í ákveðnar breytingar til þess að koma Rosen­borg á þann stað sem félagið á heima á.“

Nóg að gera

Og Al­freð tekur við starfi yfir­manns knatt­spyrnumála á tíma­punkti þar sem mikið er um að vera. Félag­skipta­glugginn er opinn, undir­búningstíma­bilið byrjar og það styttist í næsta tíma­bil. Leik­menn að koma, aðrir að fara og leitað að leiðum til þess að styrkja liðið fyrir komandi tíma­bil.

„Ég kom hingað til Þránd­heims á sunnu­daginn síðastliðinn að kvöldi til og mætti á mánu­dags­morgni til vinnu. Það er svo sannar­lega búið að vera nóg að gera, rosa­lega mikið og mikil dreifing á þeim verk­efnum sem eru í gangi. Félags­skipta­glugginn er opinn, leik­menn að koma og fara. Maður þarf að fá innsýn í það hvað er búið að gerast fyrir komu mína. Það góða við að ég kem svolítið utan frá inn í þetta er að ég er með ferska sýn á hlutina. Þetta er náttúru­lega bara mjög spennandi þó þetta hafi verið krefjandi fyrstu dagar. Ég vaknaði í morgun og hlakkaði til að mæta í vinnuna. Fyrstu vikurnar og mánuðirnir verða krefjandi, ég geri mér alveg grein fyrir því en þegar að maður tekur svona starf að sér veit maður nokkurn veginn hvað maður er að fara út í.“

Íslandstengingin í Rosenborg er sterk. Matthías Vilhjálmsson er einn þeirra íslensku leikmanna sem hefur verið á mála hjá félaginu. Fjórum sinnum varð hann norskur meistari með Rosenborg og bikarmeistari í þrígang. Hann er hluti af síðasta liði félagsins sem varð meistari árið 2018.vísir/getty

Það að koma Rosen­borg aftur í baráttuna um titla við bestu lið Noregs verður engin göngu­ferð í garðinum. Lið Vikings frá Stafangri er ríkjandi Noregs­meistari en lið Bodø/Glimt hefur ráðið ríkjum þar í landi undan­farin ár og góður árangur í Evrópu­keppnum hefur komið félaginu í kjör­stöðu til þess að sækja enn lengra.

„Svo eru nokkur lið að gera vel og elta þá. Það er fyrsta skrefið að komast þangað en það sem var mjög heillandi í þessum viðræðum var langtíma­planið. Það er búið að vera vinna í stra­tegíu félagsins síðustu ár og hún var kynnt í fyrra. Það er eitt­hvað sem ég geng inn í, að út­færa þessa stra­tegíu sem búið er að vinna í.

Mikilvægur punktur í þessu öllu saman er að mér er boðinn fimm ára samningur. Það er ekki öllu tjaldað til eins árs, þeir vilja mikinn stöðug­leika í þessari stöðu og maðurinn sem sinnti henni á undan mér var búinn að vera á mála hjá félaginu í sex ár. Það eru pælingar til framtíðar hér. Eins og við vitum öll með fót­boltann þá þurfum við öll smá tíma en það fær enginn tíma. Við þurfum því að reyna gera það sem við viljum gera bæði fljótt og vel. En vitandi að það gæti tekið okkur ein­hver ár að koma okkur á þann stað sem við viljum öll sjá Rosen­borg á.“

Bodø/Glimt hefur verið að gera það gott í Evrópukeppnum, nú síðast í Meistaradeild Evrópu.Vísir/Getty

Samkeppni um allar stöður í fótbolta

Á sínum leik­manna­ferli vann Al­freð titla og spilaði fyrir stór lið á borð við Real Sociedad á Spáni, Olympiacos í Grikk­landi og Augs­burg í Þýska­landi. Auk þess fór hann á tvö stór­mót með ís­lenska lands­liðinu og spilaði 73 lands­leiki.

Al­freð finnur fyrir sömu spennunni núna og þegar að hann gekk til liðs við nýtt félag sem leik­maður

„Ég er mjög stoltur að fá þetta tækifæri og tek því ekki sem sjálfsögðum hlut. Munurinn er hins vegar sá að sem leik­maður eru það 25 leik­menn alla jafna í hverjum leik­manna­hópi. Það er hins vegar bara einn þjálfari og einn yfir­maður knatt­spyrnumála. Það er sam­keppni um allar stöðu í fót­bolta. Ég er mjög meðvitaður um það að þetta er risa tækifæri fyrir mig og ég ætla að taka það föstum tökum, hlakka til að inn­leiða þær hug­myndir sem ég er með, vonandi eiga minn þátt í því að Rosen­borg nái að snúa taflinu í rétta átt svo við getum upp­lifað skemmti­lega tíma hér næstu ár í Þránd­heimi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×