Íslenski boltinn

Víkingur og Breiða­blik mætast í fyrsta leik Bestu deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingar og Blikar hafa marga hildina háð síðustu ár og nú byrjar allt strax í fyrstu umferðinni.
Víkingar og Blikar hafa marga hildina háð síðustu ár og nú byrjar allt strax í fyrstu umferðinni. Vísir/Diego

Íslandsmeistarar síðustu fimm ára, Víkingur og Breiðablik, munu mætast í fyrstu umferð Bestu deildar karla í fótbolta á komandi sumri.

Opnunarleikurinn fer fram 10. apríl en umferðin klárast svo með fimm leikjum tveimur dögum síðar eða 12. apríl. Deildin er að byrja aðeins seinna en síðustu ár en sumarið 2025 var fyrsti leikur 5. apríl og árið áður byrjaði deildin 6. apríl. 

Upplýsingar um leiki sumarsins koma fram á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands þar sem birtust drög að niðurröðun leikja í Bestu deild karla og kvenna.

Aðrir leikir í fyrstu umferðinni eru eftirtaldir: KR-Keflavík, Valur-Þór, ÍBV-FH, KA-Stjarnan og Fram-ÍA.

Fyrsti Akureyrarslagurinn í efstu deild í langan tíma verður þegar Þórsarar fá KA-menn í heimsókn 2. maí.

Í lokaumferðinni fyrir úrslitakeppnina taka Íslandsmeistarar Víkings á móti Fram, ÍA fær KR í heimsókn, Þórsarar taka á móti FH-ingum, Valsmenn sækja Keflvíkinga heim, KA tekur á móti Blikum og Stjarnan fær Eyjamenn í heimsókn í Garðabæinn.

Nýliðar Keflavíkur, Þórsarar, FH-ingar og Skagamenn spila öll tvo fyrstu leiki sína á útivelli en þau spila heimaleiki sína á náttúrulegu grasi.  Fram, KR, KA og Valur byrja mótið aftur á móti á tveimur heimaleikjum.

Þrjár síðustu umferðirnar í úrslitakeppni Bestu deildarinnar fara fram eftir nýja langa landsleikjahléð og fara því engir leikir fram í deildinni frá 21. september til 8. október.

Það verður einnig landsleikjahlé frá 31. maí til 14. júní. Það verður aftur á móti ekkert hlé á meðan heimsmeistaramót karla stendur yfir frá 11. júní til 19. júlí.

Deildarkeppni Bestu deildar karla fer fram frá 10. apríl til 6. september en úrslitakeppni karla fer fram frá 13. september til 25. október.

Drögin í Bestu deild karla má finna hér en drögin í Bestu deild kvenna eru aðgengileg hér.

Íslandsmeistarar Breiðabliks fá Þróttara í heimsókn í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna 24. apríl en á sama tíma mætast Víkingar og Stjörnumenn í Víkinni. Fyrsta umferðin klárast svo með þremur leikjum daginn eftir eða eftirtöldum leikjum: Fram-ÍBV, Valur-Grindavík/Njarðvík og Þór/KA-FH.

Fyrsta umferð kvenna hefst því strax eftir landsleikjahlé í apríl en annað landsleikjahlé er síðan frá 30. maí til 13. júní.

Deildarkeppni Bestu deildar kvenna fer fram frá 24. apríl til 29. ágúst en úrslitakeppni kvenna fer fram frá 6. september til 4. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×