Enski boltinn

Samningur í höfn hjá Carrick og Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Carrick mun stýra Manchester United fram á vor.
Michael Carrick mun stýra Manchester United fram á vor. Getty/Marc Atkins

Manchester United hefur samkvæmt heimildum David Ornstein hjá The Athletic náð munnlegu samkomulagi við Michael Carrick og þjálfarateymi hans um að stýra liðinu út tímabilið.

Ráðningarnar eru háðar frágangi samningsatriða og tilkynningu. Þeir verða komnir til starfa fyrir leik United á móti Manchester City á laugardaginn.

Ole Gunnar Solskjær hafði verið orðaður við stöðuna en Norðmaðurinn mun ekki snúa aftur til að taka við stjórnartaumunum á Old Trafford í annað sinn.

Simone Stone hjá BBC segir að eftir því sem hann veit best séu enn nokkur smávægileg atriði sem þurfi að ganga frá milli United og Michael Carrick en ekkert sem kemur í veg fyrir að fullt samkomulag náist í dag.Það myndi þýða að Carrick gæti stýrt æfingu þegar aðalliðið snýr aftur á morgun eftir nokkurra daga frí og stýrt United út tímabilið.

Michael Carrick stýrði liði United áður sem bráðabirgðastjóri í þremur leikjum eftir að Solskjær var rekinn haustið 2021, vann tvo leiki og gerði eitt jafntefli. Hann yfirgaf félagið eftir að Ralf Rangnick var ráðinn sem bráðabirgðastjóri út tímabilið 2021–22, en hafði áður verið í þjálfarateymi Jose Mourinho og Solskjær strax eftir að hann lagði skóna á hilluna árið 2018.

Carrick var ráðinn til Middlesbrough í ensku B-deildinni í október 2022 og kom liðinu úr 21. sæti, þegar hann tók við, upp í það fjórða í lok tímabils. Liðið tapaði fyrir Coventry City í undanúrslitum umspilsins. Middlesbrough endaði í áttunda sæti tímabilið 2023–24 og Carrick fékk þriggja ára samning í lok tímabilsins. Liðið endaði svo í 10. sæti tímabilið 2024–25 og var Englendingurinn rekinn í lok þess tímabils.

Sem leikmaður spilaði Carrick 464 leiki fyrir United á tólf ára tímabili og vann fimm ensku úrvalsdeildartitla og einn Meistaradeildartitil. Hann lék áður með West Ham United og Tottenham Hotspur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×