Enski boltinn

Nýr stjóri Chelsea fékk óska­byrjun

Sindri Sverrisson skrifar
Marc Guiu fagnar eftir að hafa skorað eitt marka Chelsea gegn Charlton í kvöld.
Marc Guiu fagnar eftir að hafa skorað eitt marka Chelsea gegn Charlton í kvöld. Getty/Darren Walsh

Liam Rosenior þurfti aldrei að hafa miklar áhyggjur í sínum fyrsta leik sem þjálfari Chelsea, þegar liðið lagði Charlton að velli í ensku bikarkeppninni í fótbolta í kvöld.

Charlton situr neðarlega í ensku B-deildinni og það mátti því búast við þægilegum leik fyrir heimsmeistarana í þessum Lundúnaslag. Sú varð raunin og Chelsea vann að lokum 5-1 sigur eftir tvö mörk í uppbótartímanum.

Sigurinn hefði getað orðið mun torsóttari ef Jorrel Hato hefði ekki brotið ísinn fyrir Chelsea rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, með sannkölluðu þrumuskoti.

Tosin Adarabioyo tvöfaldaði svo forskotið snemma í seinni hálfleik með frábærum skalla, eftir aukaspyrnu Facundo Buonanotte.

Heimamenn gáfust samt ekki upp og hinn stæðilegi Miles Leaburn minnkaði muninn í 2-1 á 57. mínútu en Marc Guiu gerði sitt besta til að slökkva allar vonir Charlton með marki fimm mínútum síðar.

Eftir það var aldrei hætta á öðru en að Chelsea færi áfram í 32-liða úrslitin og þeir Pedro Neto og Enzo Fernández innsigluðu sigurinn í lokin. Neto skoraði upp á sitt einsdæmi, laglegt mark, áður en Estevao krækti í vítaspyrnu eftir laglega takta og Enzo skoraði úr henni.

Rosenior fær öllu þyngra próf í næsta leik þegar Chelsea mætir Arsenal í undanúrslitum enska deildabikarsins, á miðvikudagskvöld.


Tengdar fréttir

Draumur Villa lifir en eru dagar Franks taldir?

Aston Villa sló Tottenham út í 64-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í fótbolta í kvöld, með 2-1 sigri í Lundúnum. Þar með aukast enn raunir Tottenham-manna en stórkostlegt tímabil Villa heldur áfram.

Semenyo skoraði eitt af tíu og Hákon hélt hreinu

Antoine Semenyo er kominn í gang hjá nýjum vinnuveitendum. Hann skoraði eitt marka Manchester City í 10-1 sigri á Exeter í enska bikarnum er hann þreytti frumraun sína. Hákon Rafn Valdimarsson komst þá áfram og hélt hreinu fyrir Brentford.

Newcastle áfram eftir bráðabana og mikla dramatík

Eftir ótrúlega dramatík, vítakeppni og bráðabana er Newcastle komið áfram í 32-liða úrslit ensku bikarkeppninnar í fótbolta, með sigri gegn Bournemouth í úrvalsdeildarslag í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×