Fótbolti

Ungur leik­maður Metz slasaðist í sprengingunni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tahirys Dos Santos hlaut alvarleg brunasár og var fluttur með sjúkraflugi til Þýskalands.
Tahirys Dos Santos hlaut alvarleg brunasár og var fluttur með sjúkraflugi til Þýskalands.

Tahirys Dos Santos, 19 ára leikmaður franska félagsins Metz, var meðal þeirra sem slösuðust í sprengingunni sem varð í kjallara skemmtistaðar í skíðabænum Crans Montana í svissnesku Ölpunum í gærnótt.

Fjörutíu manns létu lífið í slysinu og að minnsta kosti 115 særðust. Forsetinn Guy Parmelin segir um að ræða einn versta atburðinn í sögu svissnesku þjóðarinnar.

Dos Santos nýtti jólafríið í franska boltanum og skellti sér á skíði með vinum sínum yfir hátíðarnar.

Hann var á varamannabekknum þegar Metz sló Bieshiem út í franska bikarnum þann 20. desember en næsti leikur liðsins er sunnudaginn 4. janúar gegn Lorient.

Félagið sagði Dos Santos hafa átt að snúa aftur á æfingar í dag samkvæmt plani. Stjórnarmenn, þjálfarar og leikmenn félagsins séu í miklu áfalli og muni styðja Dos Santos og fjölskyldu hans meðan hann jafnar sig.

Dos Santos hlaut alvarleg brunasár og var fluttur með sjúkraþyrlu á spítala í Þýskalandi. Unnið er að því að koma honum til Frakklands í frekari endurhæfingu en hann getur ekki ferðast að svo stöddu.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×