Enski boltinn

Havertz gæti snúið aftur á næstu dögum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kai Havertz hefur ekkert spilað síðan í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar gegn Manchester United. 
Kai Havertz hefur ekkert spilað síðan í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar gegn Manchester United.  Visionhaus/Getty Images

Liðsstyrkur gæti borist Arsenal, toppliði ensku úrvalsdeildarinnar, á næstu dögum í formi Kai Havertz, sem hefur jafnað sig af meiðslum.

Þýski framherjinn hefur ekkert spilað síðan hann gekkst undir aðgerð á hnénu í águst en sneri aftur til æfinga með liðinu í síðustu viku.

„Ég held að þetta sé spurning um daga frekar en vikur, en við verðum að sjá til hvernig hann verður. Við höfum saknað hans mikið. Þetta er leikmaður sem gefur sóknarleiknum nýja vídd, þannig að ég er mjög ánægður að endurheimta hann“ sagði Mikael Arteta á blaðamannafundi Arsenal í dag.

Arsenal spilar tvo leiki milli jóla og ný árs, gegn Brighton á morgun og Aston Villa á þriðjudag, áður en liðið mætir Bournemouth þann 3. janúar.

Havertz gæti snúið aftur og styrkt framlínuna en varnarlína Arsenal er enn í miklum meiðslavandræðum.

Arteta sagði brasilíska miðvörðinn Gabriel ekki enn byrjaðan að æfa með liðinu og óvíst er hvort Piero Hincapie geti tekið þátt á morgun eftir að hafa meiðst í síðasta deildarleik. Þá hafa Ben White og Cristhian Mosquera verið fjarverandi lengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×