Erlent

Fyrir­skipaði á­rásir á „hryðju­verkaúr­hrök“ í Ní­geríu

Atli Ísleifsson skrifar
Skjáskot úr myndbandi varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna sem sagt er sýna þegar eldflaugum er hleypt frá herskipi Bandaríkjahers.
Skjáskot úr myndbandi varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna sem sagt er sýna þegar eldflaugum er hleypt frá herskipi Bandaríkjahers. DoW

Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði hernaðarárásir Bandaríkjahers á skotmörk hryðjuverkasamtakanna sem kennd eru við Íslamskt ríki (ISIS) í norðvesturhluta Nígeríu í gærkvöldi.

Forsetinn bandaríski lýsti samtökunum sem „hryðjuverkaúrhrökum“ og sakaði þá um að ofsækja og drepa saklausa, kristna menn. Í frétt BBC segir að árásirnar hafi verið „margar“ og „fullkomnar“, en talsmenn Bandaríkjahers í Afríku, Africom, sögðu árásirnar hafa verið framkvæmdar í samráði við nígerísk stjórnvöld í Sokoto-héraði.

Nígeríski utanríkisráðherrann Yusuf Maitama Tuggar sagði breska ríkisútvarpinu að þetta hafi verið „sameiginleg aðgerð“ sem hafi beinst að „hryðjuverkamönnum“ og hafi „ekkert að gera með ákveðin trúarbrögð“. Hann sagði að skipulagning aðgerðanna hafi staðið yfir í nokkurn tíma og að notast hafi verið við gögn frá leyniþjónustu Nígeríu.

Tuggar útilokaði ekki að ráðist yrði í frekari árásir og að það færi eftir ákvörðunum leiðtoga ríkjanna tveggja, það er Nígeríu og Bandaríkjanna.

Trump sagði á samfélagsmiðli sínum Truth Social að undir hans stjórn muni Bandaríkin ekki leyfa „hryðjuverkastarfsemi róttækra íslamista að blómstra“. Forsetinn fyrirskipaði Bandaríkjaher í nóvember að undirbúa árásir gegn hryðjuverkahópum í Nígeríu.

Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagðist í gær vera þakklátur stjórnvöldum í Nígeríu fyrir stuðning og samvinnu. „Gleðileg jól,“ bætti hann svo við í færslu sinni á X.

Stjórnvöld í Nígeríu hafa lengi barist við hryðjuverkasamtök í norðurhluta landsins. Samkvæmt tölum frá Mannréttindastofnun Nígeríu þá hafa að minnsta kosti 2.266 manns verið drepnir af stigamönnum og uppreisnarmönnum fyrri hluta ársins 2025 sem er mikil aukning frá fyrra ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×