Fótbolti

Fé­lag Arnórs Ingva og Ísaks seldi þjálfara sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason er kominn með nýjan þjálfara hjá sænska félaginu Norrköping.
Arnór Ingvi Traustason er kominn með nýjan þjálfara hjá sænska félaginu Norrköping. EPA/TOLGA AKMEN

Sænska Íslendingaliðið Norrköping átti mjög erfitt ár og féll á endanum niður í sænsku B-deildina. Þjálfari liðsins heldur ekki áfram en hann var ekki rekinn heldur seldur.

Norrköping féll úr sænsku deildinni eftir tap í umspilsleikjum við Örgryte og spilar því ekki í efstu deild í fyrsta sinn í fimmtán ár.

Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson spila báðir með Norrköping og eru með samning út næsta ár.

Þeir eru komnir með nýjan þjálfara en Norrköping tilkynnti að hinn 38 ára gamli Eldar Abdulic verði nýr þjálfari liðsins.

Var með samning til 2028

Martin Falk heldur ekki áfram þrátt fyrir að hafa skrifað undir þriggja ára samning við IFK Norrköping fyrir tímabilið 2025.

En það varð því aðeins eitt ár hjá félaginu. Nú yfirgefur Falk félagið, eftir að liðið féll niður í Superettan.

„Ég vil þakka öllum sem studdu okkur þrátt fyrir ótrúlega erfitt ár. Ég óska þess svo heitt að við hefðum getað skilað betri árangri. Ég er ævinlega þakklátur fyrir skilyrðislausan stuðning ykkar,“ sagði Martin Falk á heimasíðu IFK Norrköping.

Hann var þó ekki að taka pokann sinn því félagið tilkynnti að Falk hefði verið keyptur af öðru félagi.

Mun tilkynna kaupin síðar í vikunni

„Félagið sem kaupir hann mun tilkynna um félagaskiptin síðar í vikunni,“ skrifaði IFK Norrköping.

Eldar Abdulic var síðast aðalþjálfari hjá Sandvikens IF.

„Þetta er alveg frábær tilfinning. Þegar ég talaði við Henrik (Jurelius) í fyrsta skipti og hann kynnti allt saman, fékk ég þessa góðu tilfinningu í magann. Núna vil ég bara byrja,“ sagði Abdulic á heimasíðu félagsins.

Henrik Jurelius, yfirmaður íþróttamála hjá IFK Norrköping, tjáir sig um ráðninguna:

„Eldar býr yfir mörgum þeirra eiginleika sem við höfum leitað að og sem við teljum mikilvæga í þeirri endurræsingu sem félagið stendur frammi fyrir á komandi tímabili,“ sagði Henrik Jurelius og heldur áfram:

„Við bjóðum Eldar velkominn til IFK Norrköping og hlökkum til þeirrar vegferðar sem við munum fara í ásamt allri borginni,“ sagði Jurelius.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×