Fótbolti

Mbappé vann PSG og fær níu milljarða

Sindri Sverrisson skrifar
Kylian Mbappé á von á hárri millifærslu.
Kylian Mbappé á von á hárri millifærslu. Getty/Juan Manuel Serrano

Franska knattspyrnufélagið Paris St-Germain hefur verið dæmt til þess að greiða Kylian Mbappé, fyrrverandi framherja liðsins, 60 milljónir evra eða jafnvirði um 8,9 milljarða króna.

Um er að ræða ógreidd laun og bónusa sem Mbappé átti inni frá því að hann var leikmaður PSG á árunum 2017-2024.

Mbappé fór frá PSG sumarið 2024, frítt, eftir að samningur hans við félagið rann út en PSG hafði keypt hann frá Monaco fyrir 180 milljónir evra.

Mbappé fór upphaflega fram á 263 milljónir evra frá PSG, þegar langvinnar deilur hans við félagið höfðu endað hjá dómstólum í París í síðasta mánuði. Að sama skapi fór PSG fram á 240 milljónir evra frá Mbappé sem félagið hafði ætlað sér að selja til Al-Hilal í Sádi-Arabíu sumarið 2023 fyrir stjarnfræðilegar upphæðir.

Í kröfu Mbappé voru 55 milljónir evra vegna ógreiddra launa sem voru því uppistaðan í þeirri upphæð sem PSG hefur nú verið dæmt til að greiða honum.

„Við sættum okkur við þennan dóm. Þetta er það sem búast má við þegar laun eru ekki greidd,“ sagði Frederique Cassereau, lögmaður Mbappé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×