Lífið samstarf

Aftenging í sítengdum heimi

Lestrarklefinn
Bók Árna Helgsonar, Aftenging, er tekin fyrir í Lestrarklefanum.
Bók Árna Helgsonar, Aftenging, er tekin fyrir í Lestrarklefanum.

Aftenging er fyrsta bók lögfræðingsins Árna Helgasonar og kom út hjá Bjarti á dögunum. Sjöfn Asare hefur þetta að segja um bókina á menningarvefnum Lestrarklefinn.

Aftenging segir frá vinahóp á fimmtugsaldri sem leigir sér lúxuseyjuna Grið til að varpa frá sér áhyggjum af umheiminum og styrkja tengslin sín á milli. En, eins og á það til að gerast í skáldsögum, og stundum í raunveruleikanum, fer ekki allt á þann veg sem ætlað var.

Sjöfn Asare fjallar um bækur á menningarvefnum Lestrarklefinn

Lesandi byrjar ferðina með þeim Gunnari og konu hans, en þau hafa verið gift lengi og eiga tvö börn á unglingsaldri. Mikið hefur gengið á hjá þeim í einkalífinu og er fríið út á eyjuna kærkomið, bæði vegna þess að þau þurfa á slökuninni að halda og svo vegna þess að Gunnar á óútkljáð mál við æskuvin sinn, fyrrum handboltastjörnu og núverandi viðskiptamann, sem er á leið með þeim út á eyjuna með konu sinni. Þriðja parið í sexmenningagenginu stendur í skilnaði, svo aðeins eiginkonan þaðan kemur. Þá eru fimmmenningarnir tilbúnir í að aftengjast, því að á eyjunni Grið er ekkert síma- eða netsamband, og markmiðið er að slaka algerlega á í faðmi vinanna án nokkurra utanaðkomandi truflana.

Stofudrama framtíðarinnar

Aftenging er eins konar nútíma stofudrama þar sem stofan er ekki herbergi í húsi heldur heil eyja sem auðkýfingur hefur byggt upp og leigir fólki til að upplifa eitthvað nýtt. Og ef einhver hefur lesið svo mikið sem eina einustu glæpasögu frá því að Agatha Christie skrifaði And Then There Were None veit, þá á aldrei að fara á eyju. Aldrei nokkurn tímann. Ég geri mér grein fyrir að ég er stödd á eyju akkúrat núna, en ég er að meina litla eyju. Og þá sérstaklega litla eyju sem einhver ríkur og dularfullur á. Sem er ekki hægt að komast af eða á nema með einni útgönguleið sem getur auðveldlega dottið út. Og engu símasambandi. Come on fólk.

Ferðin byrjar að allra mati vel, það er grillað, fólk drekkur áfengi og gantast með gamla tíma. Allt virðist ætla að fara á besta veg þar til einhver þarf aðeins að kíkja í símann. Það er nefnilega hægt að klöngrast upp á dranga og ná smá símasambandi í neyð, og nútímamanneskjan metur það að vera ekki nettengdur í smá stund sem mikla neyð. En þá fara vandræðin að laumast fram. Það virðist svo vera sem að heljarinnar gagnaleki skeki samfélagið allt. Fimmmenningarnir ættu að geta látið það sem vind um eyru þjóta, er það ekki, það er ekki eins og þetta venjulega fólk hafi eitthvað að fela? Og allra síst hvert frá öðru, eða hvað?

Umfjöllunina í heild sinni má lesa hér. Fleiri ritdóma er að finna á Lestrarklefinn.is

​​






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.