Áskorun

Gömlu trixin úr­eld: Ekki pína í börn mat, múta, hóta eða upp­nefna

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Sigrún Þorsteinsdóttir, barna- og heilsusálfræðing og doktor í heilsueflingu um matvendni barna, segir mikilvægt að koma til móts við börn sem eru matvönd. Miklu skiptir að nota réttar aðferðir og þar er staðreyndin sú að gömlu trixin eru einfaldlega úreld. 
Sigrún Þorsteinsdóttir, barna- og heilsusálfræðing og doktor í heilsueflingu um matvendni barna, segir mikilvægt að koma til móts við börn sem eru matvönd. Miklu skiptir að nota réttar aðferðir og þar er staðreyndin sú að gömlu trixin eru einfaldlega úreld.  Vísir/Vilhelm

Það eru vægast sagt fróðlegt og gagnlegt að taka samtalið við Sigrúnu Þorsteinsdóttur barna- og heilsusálfræðing og doktor í heilsueflingu um matvendni barna.

Sem reyndar er umræða sem foreldrar og jafnvel ömmur og afar þurfa svolítið að rýna í. Því það er augljóst af samtalinu við Sigrúnu að mikið af þessum gömlu „góðu“ trixum sem svo margir kannast við eru einfaldlega alls ekki málið.

Sigrún nefnir nokkur kunnugleg dæmi.

Við foreldrar og forráðamenn eigum til dæmis ekki að múta börnunum með einhverju eins og ís í eftirrétt á móti fiski eða að hóta þeim og segja að það sé enginn eftirréttur ef þú borðar ekki matinn,“ 

segir Sigrún og bætir við fleiri trixum sem allir þekkja og eru engan vegin málið:

„Við eigum ekki heldur að verðlauna þau með mat. Til dæmis með því að segja ef þú stendur þig vel á prófinu færðu snakk.“

Og eitt er algjörlega BANNAÐ með stórum stöfum.

Og það er að:

Við megum ekki pína ofan í börn mat!

Matvendni barna getur samt verið flókið vandamál. Skapað alls kyns pirring og togstreitu heima fyrir. Jafnvel þannig að uppalendur, foreldrar eða afar og ömmur eru ekki alveg samstíga í því hvernig best er að taka á málum.

„Það er til dæmis gríðarlega mikilvægt að kalla börn aldrei matvönd þannig að þau heyri til. Það getur fest við þau og erfitt að losna undan þeim stimpli,“ segir Sigrún.

Í Áskorun fjöllum við um erfiðu málin en líka allt það jákvæða og góða sem getur byggt okkur upp eða hvatt aðra til dáða. Áskorun fjallar á mannlegan hátt um öll lífsins verkefni.

Það sem amma sagði…

Svo það sé einfaldlega skýrt út í upphafi, þá er Sigrún Þorsteinsdóttir sú sama og hefur matreitt ofan í okkur alls kyns góðar uppskriftir af vefnum sínum cafesigrun.com sem hún stofnaði árið 2013. Og telur nú þúsundir uppskrifta í nánast hvaða matarflokki sem er.

Sem eru hollar.

Því já, þótt Sigrún hafi sjálf varla kunnað nokkuð í matseld fyrr en eftir 25 ára, hefur hún síðustu árin og áratugi, unnið að því leynt og ljóst að fólk borði hollari mat, sé fróðari um mat og betur meðvitað um hvað það er að setja ofan í sig.

En ætlum við ekki að ræða matvendni barna spyrja sig sumir nú? 

Svarið er jú. 

En hugsanlega þurfum við að byrja þá umræðu svolítið með því að líta í eigin barm. Ekki síst með tilliti til þess að hlutfall gjörunna matvæla telst hærra á Íslandi en mjög víða annars staðar.

Sigrún rifjar upp gamla tíma.

Amma mín sagði alltaf að ef maður skyldi ekki innihaldslýsingu matvöru, ætti maður ekki að borða hana og mér finnst margt til í því.“

Málið er þó að ekki allir yfir höfuð leggja það á sig að lesa innihaldslýsingar. Sem þó eru mjög upplýsandi því Sigrún segir að þegar matur er búinn til af efnafræðingum eða vísindafólki og geymsluþol þeirra er til margra ára, sé nokkuð augljóst að hann er kominn langt frá uppruna sínum.

„Mér finnst afleitt þegar ég fer inn í sumar matvöruverslanir, að ég þurfi að þræða mig í gegnum fjölda ganga og rekka af gjörunnum matvælum og það sem ég kalla „ekki-mat“, áður en maður kemur að afurðum sem amma mín hefði þekkt,“ segir Sigrún.

Sem er nokkuð góð samlíking. Því í hillunum og vöruúrvali nútímans er einfaldlega svo margt í boði sem kynslóðir ömmu og afa þekktu svo sannarlega ekki til sem börn.

En það sem hefur breyst líka síðan þau voru börn, er að matmálstímar eru ekki endilega í jafn föstum skorðum og eitt sinn var. Þegar eldað var heima í sveitinni að minnsta kosti tvisvar á dag og kaffitímar þess á milli.

„Í dag eru foreldrar svo ofboðslega uppteknir og það er margt í samfélaginu sem þyrfti að laga til að fleiri hefðu tíma til að setjast saman og borða heimatilbúna máltíð sem þó þarf ekki að vera flókin til að vera næringarrík og staðgóð,“ segir Sigrún.

En ef við horfumst líka í augu við ýmislegt annað sem truflar okkur fullorðna fólkið oft líka, er sem dæmi að ekki vilja allir borða grænmeti.

Sem Sigrún skýrir svolítið út fyrir okkur og tengist í raun lífi forfeðra okkar.

„Sem forðuðust til dæmis beiskar plöntur sem gátu verið eitraðar en hölluðust frekar að því sem var sætt og öruggt eins og móðurmjólkin og jafnvel ávextir eða ber.“

Afleiðingarnar af þessu er að fólk er enn þann dag lengur að læra að borða beiskan mat, eins og grænmeti. Á meðan móðurmjólkin lærum við yfirleitt strax að meta, og sætindi, safar og fleira er eitthvað sem flestum finnst gott og auðvelt að borða.

„Sumir þurfa að æfa sig helling í að borða grænmeti og helst að borða það á hverjum degi til að það þyki sjálfsagt og gott að borða það. Við eigum líka misjafnlega auðvelt með áferð, lykt, bragð, hljóð og fleira í tengslum við fæðutegundir svo við erum misjafnlega lengi að komast upp á lag með það,“ segir Sigrún.

Og talandi um þetta: Vissuð þið til dæmis að börn með ADHD og/eða einhverfu geta átt erfiðara með grænmeti en mörg önnur börn?

Jú, nú skulum við læra aðeins meira um matvendni barna…., þegar og ef matvendni skyldi kalla?

Sigrún segir mikilvægt fyrir börn og fullorðna að tyggja mat. Skvísur eigi helst ekki að nota nema sem neyðarúrræði. Dæmi eru um að börn reyni að sjúga banana því þau kunna ekki að bíta.Visir/Vilhelm

Þjálfun og aðferðir

Að sögn Sigrúnar, er matvendni barna langalgengust þegar börn eru á aldrinum 2-6 ára. Þetta fer síðan yfirleitt að lagast í kringum unglingsaldurinn.

Oft er talað um matvendni eins og einhvers konar vandfýsni eða dynti.

„Margir halda að börnin séu bara frek eða dyntótt þegar í reynd þau geta átt mjög erfitt með að setja matinn ofan í sig eða jafnvel snerta hann. Börn geta haft fælni fyrir ákveðnum mat og hræðst allar nýjungar og svo geta þau líka verið að plokka til dæmis sveppi og rúsínur úr fæðunni og svo fara sífellt fleiri fæðuflokkar að detta út,“ útskýrir Sigrún.

Á ensku kallast þessi fæðusérviska „picky“ eða „fussy eating.“

„Ef börnin fá aftur á móti alltaf einungis það sem þau vilja er það ekki besta leiðin til að kenna þeim að meta og njóta fæðunnar því valdið verður alfarið í höndum þeirra og það endar oftast ekki vel.“

Vísindin hafa þó kennt okkur heilmikið síðustu áratugina. Því nú er vitað að börn með skynúrvinnsluvanda eiga sérstaklega erfitt með áferð, lykt, bragð og hljóð í tengslum við mat.

„Börn sem glíma við taugaþroskaraskanir á borð við ADHD og einhverfurófsröskun, eiga enn erfiðara með að tileinka sér fæðu eins og grænmeti, ávexti, korn og fræ og þess vegna verður róðurinn oft erfiður fyrir foreldra sem eru að gera sitt besta til að næra börnin sín,“ segir Sigrún og bætir við:

Talið er að allt að 80% barna með einhverfu og 40% barna með ADHD séu matvönd, en oft fylgjast þessar raskanir að svo vandinn verður býsna flókinn, sérstaklega á stórum heimilum þar sem vandinn getur orðið margþættur og haft áhrif á fjölskylduna alla.“

Doktorsverkefni Sigrúnar snerist einmitt um aðferðir til að kenna börnum – og foreldrum – leiðir til að komast yfir matvendnina. Verkefnið byggði á Bragðlaukaþjálfun sem Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor í næringafræði þróaði, en Anna Sigríður var leiðbeinandi Sigrúnar ásamt Urði Njarðvík, prófessor í sálfræði.

„Aðferðirnar sem við notum í Bragðlaukaþjálfun eru held ég akkúrat á skjöni við það sem maður sjálfur lenti í sem barn og á bak við aðferðir okkar liggja margar rannsóknir og mikil reynsla.“

Í rannsókn sem Sigrún vann þessu tengt, kom ýmislegt í ljós. Og þá ekki síst það, hvað ávinningurinn af því að yfirstíga matvendnina er margvíslegur.

Fyrir bæði börn og foreldra.

Dæmi:

„Niðurstöður rannsóknarinnar sýndi að matvendni lagaðist, áhyggjur foreldra minnkuðu, ánægjan af því að borða jókst sem og fjölbreytni fæðutegunda. Svo má geta þess að kvíði barnanna minnkaði sem var áhugavert því við vorum ekkert að rannsaka kvíða sérstaklega“ segir Sigrún.

Sem vísar líka í niðurstöður sem komu svolítið á óvart.

Til dæmis það að ekki var munur á árangri barna með eða án taugaþroskana þegar að því kom að meta árangur af því að þjálfast af matvendni.

„Sem segir okkur að ef aðferðirnar eru varfærnar og börnum sýnd mildi og þolinmæði, má leysa úr mörgum vandamálum. 

Einnig var mjög mikilvægt í þessu samhengi að foreldrarnir tóku þátt en þeir voru gjarnan matvandir líka!“

Rannsóknir sýna að 40% barna með ADHD eru matvönd og 80% barna með einhverfu. Þó er ekki erfiðara að þjálfa þann hóp af matvendni ef réttar aðferðir eru notaðar. Foreldrar eru gjarnan matvandir líka.Vísir/Vilhelm

Góðu ráðin

Það er ýmislegt í nútímanum sem er einfaldlega ekki að vinna með okkur. Sigrún nefnir sem dæmi skvísurnar svo kölluðu.

„Það er of algengt að ungbörn fái skvísur til að sjúga í mörgum máltíðum dagsins þannig að þau upplifa ekki heimilisbragðið, læra ekki um matvælin og aðferðirnar til að útbúa máltíð sem nýtist þeim á öllum stigum lífsins seinna meir.“

Sigrún nefnir fleiri dæmi:

Við höfum heyrt dæmi þess að máltöku barna hafi seinkað því kjálkavöðvarnir voru ekki nægilega öflugir til að mynda hljóðin þar sem þeir hafa ekki verið nýttir í að tyggja mat. 

Við höfum einnig heyrt að börn reyni að sjúga banana af því þau kunni ekki að bíta í hann.“

Að mati Sigrúnar ættu skvísur því fyrst og fremst að nýtast sem neyðarrúrræði. Til dæmis á ferðalögum.

Að tyggja matinn er nefnilega svo nauðsynlegt. Og það á líka við um fullorðna.

„Anna Sigríður og doktorsneminn Berglind Lilja Guðlaugsdóttir eru einmitt að vinna framhaldsrannsókn Bragðlaukaþjálfunar, Litlu laukana. Sú rannsókn fer fram í nokkrum leikskólum og það verður spennandi að sjá niðurstöðurnar úr henni,“ segir Sigrún.

En það má nefna fleira en skvísur sem dæmi um eitthvað sem við erum ekki að tyggja nógu vel.

„Eitt af því sem gerir gjörunna fæðu svo slæma fyrir okkur er að við erum ofboðslega fljót að borða hana. Við þurfum ekki að reyna mikið á okkur til að borða flögur, kex, fínt brauð, hvítt pasta og svo framvegis. Eftir því sem við erum fljótari að borða matinn, þeim mun fyrr fer hann í magann og við náum ekki að átta okkur á því við séum hætt að vera svöng, og jafnvel orðin allt of södd,“ segir Sigrún.

Og talandi um seddutilfinninguna: Ung börn búa yfir þeim frábæra eiginleika að finna oftast hvenær þau eru orðin södd.

Sem þýðir að við eigum ekki að yfirskrifa seddutilfinningu þeirra. 

Þegar við látum börn klára matinn af disknum, óháð svengd, hætta þau að finna þessa eðlislægu tilfinningu um hvenær þau eru hætt að vera svöng.“

Sigrún mælir með að almennt sé matmálstíminn fastur heima fyrir og að reynt sé að vinna með það að börn borði það sem á boðstólum er. Ekki sé verið að bjóða upp á eitthvað annað eins og núðlur, morgunkorn, samlokur eða skvísur.

Þó má ekki hóta, múta, pína.

„Rannsóknir hafa sýnt að börn sem eru pínd til að borða tiltekinn mat, eiga erfitt með að borða þann mat á fullorðinsárum og getur jafnvel smitast yfir á aðrar fæðutegundir,“ segir Sigrún til staðfestingar á því hvers vegna gömlu trixin í bókinni eru kannski ekkert svo góð eftir allt saman.

Sigrún nefnir tvö einföld dæmi: Að vera með niðurskorna ávexti og grænmeti í augnhæð barnsins á borði eða í ísskáp. Eða að skera grænmeti niður í skálar en ekki blanda því saman, það fái börn oft til að borða grænmetið frekar. Vísir/Vilhelm

En hvað á að gera ef barn vill ekki það sem á boðstólum er?

„Hér gildir að sýna mikla þolinmæði og leyfa börnunum að ráða ferðinni að einhverju leyti en alls ekki öllu. Til dæmis má spyrja börnin hvort þau kjósi frekar soðna, grillaða, steikta, loftbakaða (e. air-fried), maukaða eða hráa papriku, frekar en að sleppa paprikunni. Áferð og bragð af mismunandi eldunaraðferðum er svo ólíkt að þó þau vilji ekki eina aðferðina, er alveg líklegt að þau vilji aðra.“

Sigrún segir það líka gott ráð að börn fái að vera með í eldhúsinu. Læri að þekkja hráefni frá grunni og læri að matreiða þegar fram í sækir.

Við þurfum 8-15 skipti til að venjast nýjum tegundum af mat og ef barn fúlsar við skipti 2 eða 7, ætti samt að halda áfram að bjóða matinn -og borða hann sjálf!“ 

segir Sigrún og bætir við að til þess að forðast matarsóun sé fínt að bjóða bara upp á lítið í einu.

Sigrún segir líka mikilvægt að tala vel um mat, að við fullorðna fólkið séum góðar fyrirmyndir og séum lausnarmiðuð í að finna leiðir sem eru líklegar til að virkja börn í að borða hollt.

Tvö einföld dæmi:

Gott getur verið að skera niður ávexti og grænmeti og hafa í augnhæð barnsins á borði eða í ísskáp, það eykur líkurnar á því að þau sæki sér í gogginn þannig.

Sum börn eru dugleg að borða grænmeti ef það er skorið í sér skálar en ekki blandað saman og það má hafa báðar útgáfur.

Í aðdraganda jóla er líka gott að ræða aðeins matarboð og veislur. Því sum börn eiga erfitt með að mæta á þannig viðburði. Verða kvíðinn yfir því að þurfa að borða mat sem þau vilja ekki og klígjar jafnvel við, að þurfa að hlusta á fólk smjatta og fleira sem veldur þeim svo mikilli vanlíðan að þau verða hálf stjörf eða fara jafnvel að gráta.

Sem er ekki góð tilfinning fyrir neinn.

„Þarna er mikilvægt að skoða hvernig koma má til móts við barnið. Ef foreldrar eru að fara í mat má hringja á undan og athuga hvað verður í matinn, og láta vita að barnið sé enn að læra að borða nýjar fæðutegundir, að það sé að reyna sitt besta, hvort að hægt væri að hafa allar sósur til hliðar sem dæmi.“

Stundum þarf líka bara smá breytingu á útfærslu.

„Eitt barn sem ég þekki til borðar ekki þeytta rjómann í Waldorfssalati og líkar illa þegar matur blandast saman, þannig að það fær allt innihaldið salatsins í litlum skálum og engan rjóma. Þannig er ekkert stress, allir eru að borða nánast sama matinn og enginn fer í núðlur eða samlokur í staðinn fyrir það sem borið er á borð.“

Sigrún nefnir líka grænmetissúpur, þar sem hægt er að mauka grænmetið ef barn þolir illa áferðina af grænmetinu.

Láta barnið þó vita að það sé búið að mauka grænmetið, ekki eigi að reyna að „fela“ það.

Eða einfaldlega að leyfa barninu að plokka úr, til dæmis sveppi í pottrétt ef það kýs frekar að borða hráan svepp sem er þá settur til hliðar við matreiðsluna. Frekar en að sleppa sveppunum.

„Svona má taka tillit án þess að fórna næringu barnsins eða gæðastundum við matarborðið. Þetta snýst allt um að gera máltíðina sem ánægjulegasta, samverustundirnar góðar og jákvæðar og minnka streituna sem getur myndast þegar börn eru hrædd, kvíðin og foreldrarnir sömuleiðis,“ segir Sigrún og bætir við:

Við getum sett þetta í samhengi við barn sem er lengi að læra að lesa og á svo að lesa fyrir framan aðra. 

Við sýnum því að sjálfsögðu mildi og þolinmæði og gerum ekki grín að því eða uppnefnum fyrir að lesa hægt. 

Barnið þarf sinn tíma, það fer hægar yfir en önnur börn og það er allt í lagi. 

Barnið hefur pottþétt styrkleika á öðrum sviðum og óþarfi að einblína á veikleikana, sérstaklega fyrir framan aðra.“


Tengdar fréttir

„Sagði börnunum að vondur maður hefði meitt mömmu“

Mörg okkar ímyndum okkur að þegar verið er að taka fyrir mál nauðgara, raðnauðgara eða annarra harðsvíraðra kynferðisafbrotamanna í dómssal, takist á saksóknari og lögfræðingur, þar sem sá seki þarf að svara til saka og fórnarlambið reynir af bestu getu að koma sínu á framfæri, samhliða því að fylgjast með gangi mála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.