Fótbolti

„Ekki fal­legt en mjög sætt engu að síður“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari Blika, var stoltur af sínu liði eftir leik.
Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari Blika, var stoltur af sínu liði eftir leik. Pawel Cieslikiewicz

Breiðablik sótti sinn fyrsti sigur í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld. Liðið lagði Shamrock Rovers 3-1 á Laugardalsvelli og var Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari Breiðabliks, afar sáttur að leik loknum.

„Tilfinningin er frábær, þetta var ekki fallegt en mjög sætt engu að síður. Erfiðar aðstæður og allt það en það má segja að við höfum siglt þessu heim,“ sagði Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari Breiðabliks, eftir fyrsta sigur liðsins í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.

Klippa: Ólafur Ingi um fyrsta sigur Blika í Sambandsdeild Evrópu

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn en gestirnir brutu ísinn á 32. mínútu en það tók heimamenn tvær mínútur að jafna leikinn. 

„Þeir hafa verið að spila neðar og hafa verið varkárari. Við vissum að staðan gæti orðið þannig að þeir myndu reyna að sækja til sigurs. Þeir voru sterkir í dag og við vorum í vandræðum í fyrri hálfleik, þeir voru að skapa yfirtölu á köntunum og við lentum svolítið á eftir. Heilt yfir var hvorugt liðið að skapa sér mikið af færum.“

Gestirnir frá Írlandi komu út í síðari hálfleikinn af krafti en þá með vindinn í bakið. Blikar virtust þolinmóðir og reyndu að spila boltanum sín á milli.

„Það var mjög mikilvægt að fá inn þetta mark hjá Óla sem var auðvitað frábærlega gert, einstaklingsgæðin hjá Óla skinu þar. Það gerir það að verkum að þeir þurfa að taka stóra sénsa og það var ekkert eðlilega sætt að sjá þetta 3-1 mark frá Kidda. Það var bara alveg geggjað.“

„Þeir gerðu okkur erfitt fyrir og lokuðu annarri hliðinni og læstu okkur svolítið inni. Við ýttum miðjumönnunum okkar þá aðeins neðar í seinni hálfleik til þess að koma þeim meira á boltann. Það gekk ekki 100% upp en heilt yfir er ég sáttur. Við gerðum vel og ég er ógeðslega ánægður og stoltur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×