Enski boltinn

Mjög hættu­legur víta­hringur að mati Arteta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal á Villa Park um helgina þar sem liðið fékk á sig sigurmark á síðustu sekúndu leiksins.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal á Villa Park um helgina þar sem liðið fékk á sig sigurmark á síðustu sekúndu leiksins. Getty/Mike Egerton

Meiðsladraugurinn virðist hreinlega hafa flutt lögheimili sitt á Emirates-leikvanginn því topplið ensku úrvalsdeildarinnar og Meistaradeildarinnar horfir upp á óvenjulega langan og sáran meiðslalista þessa dagana.

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að úrvalsdeildarfélagið sé nánast fast í vítahring hvað varðar meiðsli. Vandamálin virðast engan endi ætla að taka.

Meiðslastaðan hjá Lundúnafélaginu var umræðuefnið þegar Arteta ræddi við fjölmiðla fyrir leikinn gegn Club Brugge í Meistaradeildinni en hann fer fram í kvöld.

Miðvarðatríóið William Saliba, Gabriel Magalhães og Cristhian Mosquera hafa allir verið frá keppni undanfarið. Sama gildir um Kai Havertz.

Um helgina varð ungstirnið Max Dowman auk þess fyrir langtímameiðslum.

Þess má einnig geta að Martin Ødegaard, Bukayo Saka, Ben White, Gabriel Martinelli, Leandro Trossard, Gabriel Jesus, Viktor Gyökeres, Noni Madueke, Christian Nørgaard og Piero Hincapie hafa allir glímt við meiðsli í haust.

Arteta hafnar því að æfingaálag liðsins sé orsökin.

„En þegar leikmenn vantar eykst álagið á aðra leikmenn og það hefur afleiðingar. Þetta er mjög hættulegur vítahringur,“ segir Mikel Arteta samkvæmt Sky Sports.

Hann bætir við að ekki séu öll meiðsli jafn alvarleg.

Arsenal hefur unnið fimm fyrstu leiki sína í Meistaradeildinni með markatölunni 14-1 og er með ellefu stigum meira en mótherjarnir þeirra í Belgíu í kvöld.

Leikur Club Brugge og Arsenal er sýndur í beinni útsendingu á SÝN Sport Viaplay í kvöld og hefst útsendingin klukkan 19.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×