Innlent

Sonur Ölmu Möller í­hugar fram­boð

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Jónas Már Torfason.
Jónas Már Torfason. Aðsend

Jónas Már Torfason, lögfræðingur og sonur heilbrigðisráðherra, íhugar að bjóða sig fram til oddvita Samfylkingarinnar í Kópavogi. 

Í samtali við fréttastofu segir Jónas Már að margir hafi komið að tali við hann og þá sérstaklega verið minnst á oddvitasætið. Hann hafi ekki tekið formlega ákvörðun en íhugi áskornunina.

Jónas Már bjó um tíma í Kaupmannahöfn og starfaði hjá lögmannsstofunni Plesner en er nú fluttur aftur til Íslands og tók til starfa hjá lögmannsstofunni Réttur sem sérhæfður ráðgjafi með áherslu á ráðgjöf á sviði banka-, fjármála- og fyrirtækjaréttar. 

Áður var Jónas Már framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands og starfaði sem blaðamaður á Fréttablaðinu. Hann hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum og var nýlega skipaður formaður nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar af Loga Einarssyni menningarráðherra. Þá er hann einnig varamaður í yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður.

Samfylkingin í Kópavogi hefur efnt til flokksvals fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar þar sem kosið verður um fjögur efstu sætin á framboðslistanum. Framboðsfresturinn er til 12. janúar en flokksvalið sjálft fer fram þann 7. febrúar.


Tengdar fréttir

Jónas Már til Réttar

Lögmannsstofan Réttur hefur ráðið Jónas Má Torfason sem sérhæfðan ráðgjafa með áherslu á ráðgjöf á sviði banka-, fjármála- og fyrirtækjaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×