Innlent

„Jafn­vel Kringvarpið í Fær­eyjum flytur fréttir á ensku“

Árni Sæberg skrifar
Guðrún gefur lítið fyrir tillögu Snorra.
Guðrún gefur lítið fyrir tillögu Snorra. Vísir/Lýður/Anton

Formaður Sjálfstæðisflokksins gefur lítið fyrir tillögu þingmanns Miðflokksins um að Ríkisútvarpið láti af fréttaflutningi á ensku og pólsku. „Meira að segja Kringvarpið í Færeyjum flytur fréttir á ensku,“ segir hún og bætir við að hún furði sig á því að tillögunni hafi ekki fylgt önnur um að hætta útsendingum í lit. 

Þetta var meðal þess sem kom fram á fundi sem Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, boðaði Sjálfstæðismenn til um helgina. Yfirskriftin var kynning nýrrar ásýndar flokks hennar, sem segja má að hafi barist í bökkum undanfarið.

Á fundinum sagði hún að mörgum sé tíðrætt um stöðu íslenskrar tungu og að hún deildi áhyggjum þeirra að mörgu leyti. Nauðsynlegt væri að stórefla íslenskukennslu og gera öllum innflytjendum kleift að læra íslensku. Halda þyrfti hlífðarskildi fyrir tungumálinu og margar góðar hugmyndir hefðu komið fram í þeim efnum.

Bjóst við bænaskjali um svarthvítar útsendingar

„Þess vegna vakti það undrun mína að sjá tillögu um að gera Rúv óheimilt að flytja fréttir á ensku og pólsku. Jafnvel Kringvarpið í Færeyjum flytur fréttir á ensku. Ég var mest hissa á að þessari arfavitleysu tillögu hefði ekki fylgt bænaskjal um innleiðingu á svarthvítum sjónvarpsútsendingum á nýjan leik.“

Þar vísaði hún til tillögu Snorra Mássonar, þingmanns Miðflokksins, síðan í október. 

Í henni var lagt til að Alþingi ályktaði að fela menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra að hefja vinnu í samstarfi við Ríkisútvarpið við að hætta dreifingu fréttaefnis á öðrum tungumálum en íslensku. Á þessu yrðu gerðar afmarkaðar undantekningar vegna almannavarnahagsmuna en almennri frétta- og menningarumfjöllun á erlendum málum skyldi hætt.

Ætlað að rétta reksturinn við

Í greinargerð með tillögu Snorra segir að í lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, segi að Ríkisútvarpið skuli sinna menningarlegu hlutverki sínu, meðal annars með því að leggja rækt við íslenska tungu. Ekki sé fjallað þar um erlend tungumál þótt ákvörðun hafi verið tekin á síðari tímum um að veita slíka þjónustu. 

Afkoma Ríkisútvarpsins hafi verið undir væntingum það sem af er ári og bráðabirgðatölur fyrir fyrstu sex mánuði gefi til kynna að 160 milljóna króna hallarekstur verði á fyrri hluta ársins. Með tillögunni sé brugðist við þeim halla sem hafi myndast hjá Ríkisútvarpinu með því að minnka umfang og verkefni stofnunarinnar, auk þess sem bent skuli á að frjálsir fjölmiðlar sinni nú þegar fréttaflutningi á öðrum tungumálum um íslensk málefni. 

„Vélþýðingar eru líka orðnar það þróaðar að hægt er að reiða sig á þær að nokkru leyti til þess að glöggva sig á íslensku efni Ríkisútvarpsins. Flutningsmenn binda vonir við að tillaga þessi geti unnið að nokkru leyti á þeim halla sem myndast hefur í rekstri stofnunarinnar. Beita ber fullum þunga ríkisvaldsins til að senda skýr skilaboð um að íslenska sé og verði eina almenna og viðurkennda samskiptamálið í okkar þjóðfélagi, ekki síst á vegum hins opinbera. Ekki er stuðlað að aðlögun þeirra sem hingað flytja með því að gefa til kynna af hálfu hins opinbera kerfis að ekki þurfi að læra íslensku til að taka þátt í samfélaginu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×