Innlent

Út­lit fyrir mestu snjó­komu í októ­ber í manna minnum

Oddur Ævar Gunnarsson og Rafn Ágúst Ragnarsson skrifa
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur ráðleggur landsmönnum á sumardekkjum að taka strætó.
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur ráðleggur landsmönnum á sumardekkjum að taka strætó. Vísir/Egill Aðalsteinsson

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur segir að íbúar á höfuðborgarsvæðinu þurfi hugsanlega að moka sig út úr innkeyrslum á þriðjudaginn. Útlit sé fyrir einhverja mestu októbersnjókomu sem sögur fara af, reynist reikningarnir réttir.

Í gær var fyrsti vetrardagur og vetur konungur heilsaði með snjókomu á höfuðborgarsvæðinu. Haraldur segir það ekki óvenjulegt að fyrsti snjór vetrarins falli í lok október en að annað gildi um samfellda kuldakastið sem íbúar höfuðborgarsvæðisins eiga í vændum í vikunni kemur.

Veðrið næstu daga minni frekar á hávetur en október.

„Svo er meira í þessum kortum sem er óvenjulegt. Það er snjókoma aðfaranótt þriðjudags og fram eftir þriðjudegi. Ef þeir reikningar reynast réttir gætu margir á Suðvesturlandi hugsanlega fengið að sjá meiri snjó en þeir hafa nokkurn tímann áður séð í október,“ segir Haraldur.

Erum við að tala um að fólk sé að fara að grafa bílana sína út á þriðjudagsmorgun?

„Það er hugsanlegt að það verði eitthvað í þá áttina á þriðjudaginn, ef þessir reikningar eru ekki mjög skakkir. Þetta er vissum vafa undirorpið en það er alveg innan skekkjumarka.“

Aðspurður segir Haraldur að skynsamlegt sé að þeir sem eiga dekkjaskiptin enn eftir fari að drífa í því, ellegar taka strætó. Frostið framundan verður þó ekki endalaust, eins og Haraldur bendir á.

„Það koma eflaust hlákur í vetur og svo kemur vor.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×