Innlent

„Fyrst og fremst erum við að biðja um að fá að vera skráð í okkar hús“

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ragna segir það í forgangi hjá Búsetufrelsi að berjast fyrir skráðri búsetu.
Ragna segir það í forgangi hjá Búsetufrelsi að berjast fyrir skráðri búsetu. Aðsend og Vísir/Vilhelm

Ragna Ívarsdóttir, formaður Búsetufrelsis og íbúi í Grímsnes- og Grafningshreppi, segir íbúa í frístundabyggð vilja fá leyfi til að hafa skráð aðsetur. Hún segir það ekki sinn vilja að fólk skrái sig aðeins til búsetu í sveitarfélaginu fyrir kosningar. Sveitarstjórn óttast að íbúum muni fjölga í aðdraganda kosninga og svo fækka aftur. Sveitarfélagið muni þurfa að taka á sig aukinn kostnað vegna þjónustu við íbúa sem svo flytji strax aftur burt.

Fjallað var um það fyrr í dag að meirihluti sveitarstjórnar hefði áhyggjur af fjölgun lögheimilisskráninga í sveitarfélaginu í aðdraganda kosninga næsta vor. Fulltrúarnir gagnrýndu sömuleiðis hvatningu til sumarhúsaeigenda um að skrá lögheimili sitt í sveitarfélaginu fyrir sveitarstjórnarkosningar næsta vor.

Ragna segir afar skiptar skoðanir íbúa í frístundabyggð og sumarhúsum í hreppnum um þjónustustig og um það fjalli deilur í sveitarfélaginu um lögheimilisskráningu. Hún segir félagið ekki hvetja til lögheimilisskráningar fyrir kosningar. Krafa félagsins sé að fólk fái skráða búsetu í stað þeirrar ótilgreindu sem þau eru nú með.

Vilja skráð aðsetur í frístundabyggð án þjónustu

Ragna segir helsta baráttumál Búsetufrelsis að íbúar með fasta búsetu í frístundabyggð fái að hafa skráð aðsetur í stað þess að það sé ótilgreint eins og það er núna. Um tuttugu prósent íbúa sveitarfélagsins séu skráðir með ótilgreint lögheimili og þeir vilji fá að breyta því vegna skerðingar á ýmsum réttindum. Til dæmis fái þau ekki lánshæfismat hjá Creditinfo því þau eru skráð með búsetu erlendis. Það hafi svo bein áhrif á möguleika fólks á að fá lán eða kreditkort.

„Við höfum bara óskað eftir því að fá að vera skráð í húsið okkar. Við erum ekki að biðja um snjómokstur, skólaakstur eða sorphirðu. Um frístundabyggð gildir deiliskipulag sem er inni í aðalskipulagi. Sveitarfélagið missir aldrei þetta vald en þau óttast það.“

Hún gagnrýnir sveitarstjórnarfulltrúa sveitarfélagsins sem skrifuðu grein í dag og sökuðu frístundahúsaeigendur um að breyta lögheimilisskráningu sinni stuttu fyrir kosningar til að geta haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. Þeir muni svo breyta henni aftur.

Kosninga-flutningar skekki myndina

Ragna segir félagið ekki standa fyrir þessu og að hún sjálf sé á móti slíkum flutningum. Skoðun Búsetufrelsis og félaga þess sé að slíkt myndi skekkja myndina. Hún segir þó stóran hóp íbúa komin með nóg af þessu fyrirkomulagi og því sé unnið að nýju framboði í sveitarfélaginu. Í þeim hópi sem standi að því séu bæði íbúar íbúðarhúsa og íbúar í frístundabyggð.

„Ég er ein af þeim sem bý hér ótilgreint í mínu húsi og það þýðir að ég má ekki vera skráð í mínu húsi, því það er tilgreint innan frístundabyggðar,“ segir Ragna.

Henni hafi verið fullljóst þegar hún flutti í húsið að fyrirkomulagið og lagaramminn væri með þessum hætti en það þýði ekki að hún ætli að vera sátt við það.

„Ásamt öllum sem eru í samtökunum Búsetufrelsi,“ segir hún en samtökin hafa verið starfrækt frá 2020 en hún tók við sem formaður síðasta vor. 

Hún segir sveitarfélagið beita þennan hóp miklu óréttlæti og er verulega ósátt við tilraunir sveitarfélagsins um að fá íbúa með ótilgreinda skráningu aftur skráða í það sveitarfélag sem þeir fluttu úr

Ekki betur sett sveitarfélagi sem þau búi ekki í

Ragna segist ekki sjá hvernig þau væru betur stödd að vera skráð einhvers staðar í öðru sveitarfélagi sem þau myndu þá ekki búa í. Þá segir hún sveitarfélagið vita fullvel hvar þau eru, þau greiði fasteignagjöld, hjá HMS sé fasteignaskrá og húsin séu öll með landnúmer og staðnúmer.

„Þau vita alveg hvar við erum.“

Þjóðskrá hafnaði þessari beiðni í upphafi árs en sveitarfélagið kærði þann úrskurð til dómsmálaráðuneytis. Dómsmálaráðuneytið vísaði málinu svo frá í síðustu viku og sagði, eins og Þjóðskrá, að sveitarfélagið gæti ekki verið aðili að þessu máli.

Ragna segist meðvituð um umræðu meðal sumarhúsaeigenda um flutning lögheimilis og að myndband á vegum Búsetufrelsis um flutning lögheimilis hafi farið í dreifingu í tengslum við það. Hún ítrekar þó að myndbandið er eldra og að það hafi ekki verið gert í þessum tilgangi. Hún segir sumarhúsaeigendur marga þreytta á til dæmis sorphirðu og það sé eitt af því sem sé til umræðu í tengslum við þessa flutninga. Sorphirðu sé illa sinnt og á álagstímum séu gámar oft yfirfullir. Sumir sumarhúsaeigendur eigi stór hús, greiði há fasteignagjöld og séu ósáttir við að þjónustan sé svo léleg. Þess vegna sé hvatning um að flytja lögheimili.

Ragna segir að það sem hafi fyllt mælinn hjá þessum hópi sé að sveitarfélagið hafi án samráðs við íbúa í frístundabyggð ákveðið að rotþrær þeirra yrðu tæmdar á fimm ára fresti í stað þriggja ára. Fasteignagjöld hafi verið lækkuð örlítið til að mæta aukakostnaði en þessi breyting hafi samt sem áður þýtt að flestir hafi þurft að panta aukalosun á rotþrónni. Sjálf hafi hún keypt aukalosun á sína rotþró og greitt fyrir það rúmar 150 þúsund krónur. Það sé aukagjald ofan á það sem hún greiði í fasteignagjöld.

Fordæmi fyrir aðsetursskráningu Grindvíkinga

Ragna segir fordæmi fyrir þig að fólk hafi fengið að vera skráð í frístundabyggð. Fjöldi fólks sem flúði Grindavík 2023 hafi farið í frístundabyggð og fengið undanþágu til að vera með svokallaða aðsetursskráningu. Hún telur að hægt væri til dæmis að leysa málið með þeim hætti.

„Fyrst og fremst erum við að biðja um að fá að vera skráð í okkar hús,“ segir Ragna. Það séu auðvitað skiptar skoðanir meðal íbúa sem búi ótilgreint hvað þeir eigi að fá fyrir fasteignagjöldin en það sé alveg skýrt að ef fólk flytji lögheimili sitt í frístundabyggð þá fylgi því ekki þjónusta eins og sorphirða, snjómokstur og póstur.

Ragna er fullviss um að ríkisvaldið, sem fari með lögin, finni einhverja lausn á þessu máli. Það sé engum greiði gerður með að staða þeirra og staðsetning sé svo óljós.

„Löggjafinn fer með þetta mál, ekki einstaka sveitarfélög. Sveitarstjórnir hafa skipulagsvald yfir sveitarfélögunum og það er óumdeilt. Því verður ekki breytt þó við fáum að búa í húsunum okkar. Það verður ekki snjómokstur því það er þannig í aðalskipulagi, og við erum ekki að fara fram á það. Við erum ekki íþyngjandi fyrir sveitarfélagið. Við viljum bara fá að búa hérna og taka þátt eins og aðrir í lífinu og við gerum það allflest á einhvern hátt.“

Fimmtán sveitarfélög á Suðurlandi skoruðu á stjórnvöld að endurskoða lög um lögheimili vegna fjölgunar einstaklinga sem skráðir eru með ótilgreint heimilisfangs, sérstaklega í sveitarfélögum þar sem frístundabyggð er umfangsmikil. Í ályktun frá ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga segir að fjölgunin sé umfangsmikil og að sveitarfélögin hafi miklar áhyggjur af þeirri hættu sem geti skapast þegar hvatt er til slíkra skráninga í aðdraganda sveitarstjórnarkosningar.

Óttast aukinn kostnað 

Ása Valdís Árnadóttir, oddviti í Grímsnes- og Grafningshreppi, skrifaði í dag grein á Vísi um málið ásamt tveimur öðrum sveitarstjórnarfulltrúum. Í samtali við Vísi segir hún málið alvarlegt og að sveitarstjórn óttist möguleg áhrif á rekstur sveitarfélagsins fjölgi skráningum svo mikið en fækki svo aftur eftir kosningar. Þá óttast hún að fólk verði kosið til starfa í sveitarfélaginu sem hafi þó ekki hagsmuni allra íbúa að leiðarljósi, heldur aðeins íbúa í frístundabyggð. Til dæmis gæti fólk tekið upp á því að breyta aðalskipulagi með því hætti að téðar frístundabyggðir yrði breytt í landbúnaðarbyggð. Því myndi fylgja kvöð fyrir sveitarfélagið um að veita þjónustu. Það myndi auka kostnað og óhagkvæmni.

Hún segir íbúa í frístundabyggð, sem breyti nú lögheimilisskráningu sinni, með ýmsar kröfur um aukna þjónustu sem erfitt sé að verða við. Skráningin hafi verið leyfileg frá 2017 og íbúum með þessa skráningu hafi fjölgað ár frá ári. Þann 1. janúar á þessu ári hafi verið 575 íbúar skráðir í sveitarfélagið en þeir séu nú 698. Fram kom í grein Ásu í dag að alls eru í sveitarfélaginu skráð 3.400 frístundahús.

Skora á stjórnvöld

Hún segir þetta fyrirkomulag sem leyfi ótilgreina skráningu leiða til ýmissa vandamál í sveitarfélaginu og það sé erfitt fyrir reksturinn að vita ekki hver býr hvar og hvaða þjónustu sveitarfélagið muni þurfa að bjóða upp á. Það séu til dæmis dæmi um að fólk búi með börn í slíkri byggð, ótilgreint, og að börnin mæti til skólahalds án þess að gert hafi verið ráð fyrir þeim.

Hún segir sveitarfélögin á Suðurlandi sammála um að taka þurfi á þessu og því skori þau á stjórnvöld að bregðast við.

„Við höfum óskað eftir fundi með dómsmálaráðherra til að ræða þetta,“ segir Ása.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×