Fótbolti

„Heiður að fá að vera í sama flokki og hann“

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Bjarki Daðason skráði sig í sögubækur Meistaradeildar Evrópu.
Viktor Bjarki Daðason skráði sig í sögubækur Meistaradeildar Evrópu. EPA/Liselotte Sabroe

„Ég get ekki einu sinni lýst tilfinningunni. Það er auðvitað búinn að vera draumur að spila í Meistaradeild Evrópu síðan ég var lítill, og að skora er náttúrulega bara annar draumur,“ segir Viktor Bjarki Daðason, yngsti markaskorari Íslands í Meistaradeildinni í fótbolta frá upphafi.

Viktor Bjarki ræddi við Stefán Árna Pálsson eftir að hafa orðið sá þriðji yngsti í allri sögunni til að skora í Meistaradeildinni, aðeins 17 ára og 113 daga gamall, fyrir FCK gegn Dortmund í vikunni. Viðtalið má sjá hér að neðan.

Viktor segir það hafa verið magnað að heyra Meistaradeildarlagið í fyrsta sinn sem leikmaður:

„Það var gæsahúð. Ég fékk alltaf gæsahúð þegar ég var uppi í stúku eða hreinlega heima að horfa á Champions League en að vera svo á bekknum þegar lagið var spilað var allt önnur tilfinning.“

Aðeins stjörnurnar Ansu Fati og Lamine Yamal hafa verið yngri og skorað í Meistaradeild Evrópu. Viktor, sem sló ungur í gegn hjá Fram áður en hann fór svo til FCK, er því í þriðja sæti listans en var ekkert að spá í það fyrir fram.

„Nei, ég hafði enga hugmynd. Ég var ekki að pæla í því fyrir leikinn. Ég var meira búinn að pæla í að gera mig ready til að koma inn á. Svo fékk ég bara skilaboð eftir leikinn um að ég væri á topp 3 yfir yngstu markaskorara í Champions League. Það er auðvitað líka skemmtilegt.

Yamal er líka ungur en er búinn að skapa sér svo stórt nafn að allir í heiminum vita hver hann er. Hann er rosalegur og það er heiður að fá að vera í sama flokki og hann,“ sagði Viktor.

Viktor er sonur þeirra Dagbjartar Rutar Bjarnadóttur og Daða Hafþórssonar, fyrrverandi handboltamanns, og þau styðja vel við soninn í fyrstu sporunum í atvinnumennsku:

„Pabbi er oftast með mér, því hann getur unnið að heiman, og svo kemur mamma þegar hún getur líka,“ segir Viktor.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×