Fótbolti

Lang­þráður sigur hjá Sveindísi en úr­slita­keppnin fjar­læg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni í leiknum gegn Houston Dash.
Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni í leiknum gegn Houston Dash. getty/Liza Rosales

Sveindís Jane Jónsdóttir var í byrjunarliði Angel City sem vann Houston Dash, 2-0, í bandarísku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Þetta var fyrsti sigur Angel City í sex deildarleikjum, eða síðan 2. september.

Kennedy Fuller og Maiara Niehues skoruðu mörk Angel City sem er í 10. sæti deildarinnar með 27 stig. Liðið er sex stigum frá sæti í úrslitakeppninni þegar tveimur umferðum er ólokið. Auk þess er Angel City með lakari markatölu en Racing Louisville sem er í áttunda og síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni.

Sveindís lék fyrsta klukkutímann fyrir Angel City í gær. Hún hefur leikið ellefu deildarleiki með liðinu, skorað eitt mark og gefið eina stoðsendingu.

Keflvíkingurinn gekk í raðir Angel City frá Wolfsburg í sumar. Sveindís hóf atvinnumannaferilinn með Kristianstad 2021 en lék svo þrjú og hálft tímabil með Wolfsburg.

Angel City var stofnað 2020 og byrjaði að spila í bandarísku deildinni tveimur árum seinna. Liðið komst í úrslitakeppnina 2023 en ekki í fyrra og ólíklegt er að það gerist í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×